19.08.1931
Neðri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1084 í B-deild Alþingistíðinda. (1493)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Ég get tekið undir það með hv. 2. þm. Skagf., að ég óska, að þetta mál verði ekki tekið fyrir í dag. Ég veit, að allir hv. fjhn.menn muni vera sammál. um það, að það var alveg frjálst samkomulag í n. í gær, að þetta mál skyldi ekki útkljáð fyrr en á morgun. (HV: Hvers vegna?). Hvers vegna, spyr hv. 3. þm. Reykv. M. a. vegna þess, að það kom til mála í n. að gera breyt. á frv. Og það er alls ekki rétt að knýja fram mál, án þess að gefa n. tækifæri til að athuga þau, þó þau séu flokksmál.

Þetta frv. var lesið á fundi fjhn. í gær, og borið saman við l. um tóbakseinkasölu frá 1921, og þá kom í ljós, að það var m. a. eitt atriði í frv., sem n. áleit, að þyrfti að breyta. Það er nýmæli í þessu frv., sem nm. voru sammála um, að rétt væri að breyta. Og hefði tvímælalaust verið borin fram brtt. um það, ef meiri hl. hefði ekki álitið, að málinu stafaði sú hætta af því, að það e. t. v. næði þá ekki fram að ganga á þessu þingi. Ég tel því ekki rétt að hrapa svo að þessu máli, sem ekkert sýnist liggja á, að gangi fram endilega á þessu þingi.

Það hefir nú verið svo þetta undanfarandi kjörtímabil, sem Framsókn hefir setið að völdum með stuðningi socíalista að hún hefir ekki séð sér fært að koma fram þessu máli, enda þótt kunnugt sé, að hún hafði nógan liðsafla til þess, og socíalistar fylgja fastara fram kröfunni um einkasölu en Framsókn a. m. k. hefir gert hingað til. En úr því — (HV: Er hv. þm. að tala fyrir Framsóknarflokkinn?). Nei, ég er að tala fyrir Sjálfstæðisflokkinn. En annars vil ég segja það, að úr því að hv. þm. Ísaf. þorir aldrei að taka til máls hér í hv. d., þá held ég hann ætti ekki alltaf að vera að hvísla einhverjum framíslettum að þeim hv. þm. (HV), sem situr við hliðina á honum. — Já, úr því að Framsóknarflokkurinn treystist ekki til að framkvæma þetta meðan hann sat að völdum í skjóli sinna ágætu stuðningsmanna, socíalistanna, þá þori ég að segja það, að þjóðinni muni það engin vonbrigði verða, þó að hann láti nú þetta bíða til vetrarþingsins.

Mér þætti það þannig ekkert illa til valið, að Framsóknarflokkurinn hefði með gangi málsins á þessu þingi sýnt og tilkynnt þjóðinni, að á næsta þingi verði þetta mál lögfest, svo að þeir, sem eiga hagsmuna að gæta í þessu máli, þ. e. a. s. þeir, sem eiga atvinnu sína undir því, að verzlunin með þessar vörur sé rekin í frjálsri samkeppni, hafi þá jafnframt lengri frest til að útvega sér eitthvað annað.

Ég vil nú, úr því að þessu máli liggur nú ekki meira á en þetta, sem ég hygg, að enginn maður geti mælt á móti, mælast til, að hæstv. forseti beiti ekki þessum óeðlilega vinnuhraða til þess að þetta mál nái fram að ganga á þessu þingi, og vil leyfa mér að skora á hann að taka það af dagskrá; (HV: Er það í samningunum?). Ég veit ekki, hvað er í þeim samningum, sem hv. 3. þm. Reykv. hefir gert við stj. Þeir hafa líklega verið þannig lagaðir, að Framsóknarflokkurinn ætlaði að hjálpa þessum hv. þm. til að koma fram hækkuðum tekjuskatti, og að hv. þm. ætti svo að vera í flokki með hæstv. forsrh. til að drepa kjördæmaskipunarmálið, og svo líklega, að hæstv. forsrh. hjálpaði hv. 3. þm. Reykv. til að koma fram lögunum um verkamannabústaði. Ég held, úr því að hv. þm. er alltaf að japla á einhverjum samningum, sem ekki hafa verið gerðir, að hann ætti að skýra frá þeim samningum, sem hann áreiðanlega hefir gert við hæstv. forsrh., eins og bezt kom fram áðan, þegar hann þóttist eiga meira undir sér nú en í þingbyrjun.