19.08.1931
Neðri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í B-deild Alþingistíðinda. (1494)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Héðinn Valdimarsson:

Ég vil spyrja hæstv. forseta, hvort málið sé ekki til umr.?

Við höfum fengið að heyra hv. þm. G.-K. halda hér framsöguræðu fyrir hönd Framsóknarflokksins, og mér fyndist viðeigandi, að hv. 1. þm. N.-M. kæmi nú fram og talaði sem frsm. fyrir hönd sjálfstæðismanna. (ÓTh: Og hv. 3. þm. Reykv. talaði fyrir hönd beggja). Nei, ég mun nú tala fyrir hönd míns flokks, sem er andstöðuflokkur hins sameinaða íhalds.

Það er nú kunnugt að það hefir orðið samkomulag milli beggja íhaldsflokkanna, sem þessir hv. þm. teljast til, og í því samkomulagi er sagt, að það skuli ekki samþ. á þessu þingi nein tekjuaukafrv. Undantekning var þó tóbakseinkasalan, sem ekkert samkomulag náðist um, en það virðist þó, sem eitthvað liggi á bak við það samkomulag, sem orðið hefir í hv. fjhn. hjá þessum flokksmönnum.

Þær ástæður, sem hv. þm. G.-K. færði fyrir því, að þetta mál ætti ekki fram að ganga nú, að það þyrfti að tilkynna þjóðinni, að það ætti að samþ. málið á næsta þingi, eru næsta nýstárlegar. Ég veit ekki til, að slíkt sé venja, eða hafi áður verið gert. Ef þörf þykir á að gefa meiri frest til þess að þeir, sem hafa atvinnu við tóbakið, geti útvegað sér annað, þá er hægt að gera það með því, að láta lögin ganga í gildi á öðrum tíma en ætlazt er til í frv.

Ég vil mælast til, ef nokkur alvara er í Framsóknarflokknum með að láta frv. ná fram að ganga á þessu þingi, að hæstv. forseti láti það fá afgreiðslu í dag.