19.08.1931
Neðri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1087 í B-deild Alþingistíðinda. (1497)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Ég vil aðeins árétta það, sem ég sagði áðan, að í n. var það álitið, að í frv. væri ákvæði, sem gæti komið til mála að breyta, ef framsóknarmenn hefðu ekki álitið, að af því gæti stafað hætta á, að málið dagaði uppi. Ég hygg, að ég fari ekki rangt með það.

Að því er snertir það, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, að það væri vit í að breyta frv. svo, að þeir menn, sem eiga lifibrauð sitt undir því, að verzlunin með tóbak sé frjáls, hefðu lengri frest til að afla sér annarar atvinnu, þá skal ég játa, að ég álít það bót í máli. En ég vil benda hv. þm. á það, að ef sú breyt. er gerð, þá verður endirinn sá, að frv. nær ekki fram að ganga á þessu þingi.

Að því er viðvíkur því, sem hv. þm. sagði um þessa samninga, sem hann er alltaf að japla á, að gerðir hafi verið, þá nenni ég ekki að vera að þvæla um það við hann. (HV: Nei, það tekur því ekki). Hv. 3. þm. Reykv. veit það ofur vel, að þetta er ekki annað en vitleysa, sem hann er hér alltaf að japla á, gerð til þess að reyna að veiða á hana kjósendur. Hann hefir nú sem sé loksins séð, að samvinnan við Framsókn á undanförnum árum hefir orðið honum og hans flokki dýr, á þann hátt, að nokkuð af fylgi hans hefir fallið yfir til Framsóknarflokksins. og nú á að reyna að vinna það aftur á þennan hátt. Það þýðir ekki fyrir hv. þm. að neita þessu. Það vita allir, að þetta er þrautrætt mál af Alþýðusambandinu og fulltrúaráði Alþýðuflokksins, hvernig þeir eigi að vinna aftur það fylgi, sem þeir hafa tapað. Það er ein af fundarsamþykktum Alþýðuflokksins, sem hér kemur fram, að þeir skuli höggva til beggja hliða og vera öllum ótrúir. Og nú hefir hv. þm., sem er duglegur maður, viljað sýna dugnað sinn í því að japla á þessum samningum, sem ekki eru til, og aldrei hafa verið gerðir. En hann segir, að það hafi ekki verið samið við sig. Hann hefir þó samið bæði við framsóknarmenn og við sjálfstæðismenn, og er nú reiðubúinn til að gera hrossakaup um að svíkja í kjördæmaskipunarmálinu.