05.08.1931
Neðri deild: 21. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (150)

1. mál, fjárlög 1932

Frsm. (Hannes Jónsson) [frh.] [óyfirl.]:

Ég átti eftir að minnast á örfáar brtt. á þskj. 194. Fyrst er það X. liður, um eftirlaunastyrk til Sigurgarðs Sturlaugssonar. Ég býst við, að þetta sé ekki langt frá því, sem tíðkazt hefir um fjárveitingar í þessu skyni áður. N. hefir óbundnar hendur um þessa brtt.

Þá er XI. liður, viðvíkjandi styrk til Eimskipafél. Hv. þm. Vestm. o. fl. hafa talað allmikið um þetta atriði, og fannst mér hann telja það fjarstæðu að hafa nein slík ákvæði sem felast í till. fjvn. viðkomandi þessum styrk. N. er með styrk til fél., eins og hér er farið fram á, en leggur ennfremur til, að ríkisstj. hafi íhlutun um starfrækslu fél. Eins og hv. þm. vita, hefir Eimskipafél. farið fram á meiri stuðning en þetta. Fjvn. vill ekki ganga gegn óskum Eimskipafél. meira en hægt er að komast hjá. Hinsvegar vill hún vænta þess af stj. Eimskipafél., að hún geri allt, sem í hennar valdi stendur, til að draga úr útgerðarkostnaði. Ég hygg ekki ástæðulaust, að þingið geri einhverjar ráðstafanir til þess að eitthvað verulegt verði gert í þessu efni. Því að ég held, að frá því að Eimskipafél. hóf starfsemi sína, hafi það meira og minna komið fram, hve óhæfilega dýr reksturinn hefir orðið á mörgum sviðum. Ég man eftir því, að Ásmundur Jóhannsson taldi margt af því, sem gert hafði verið, algert glapræði. Yfirleitt mun hafa verið hlaðið á fél. allt of miklum tilkostnaði. Það hefir oft verið bent á það, að rekstrarkostnaður félagsins sé miklu meiri en tíðkast með samskonar fyrirtæki annara þjóða, sérstaklega Norðmanna. En sjálfsagt er ekki hægt að vænta, að við komumst eins langt og þeir, m. a. vegna miklu lægri kaupgreiðslu hjá þeim. En aftur á móti held ég, að ekki sé ástæðulaust að gera einhverjar tilraunir í þá átt að færa niður kaupgreiðslur hjá Eimskipafél. Ég get yfirleitt búizt við, að þeir gjaldaliðir finnist hjá því, sem vel er forsvaranlegt að færa nokkuð niður. Ég hefi heyrt því fleygt t. d., að um það bil sem forstjóraskipti urðu, áður en núv. forstjóri tók við, hafi einn starfsmaður hjá Eimskipafél. fengið launahækkun, sem um munaði, þannig að launin urðu 10 þús. kr. Ef skrifstofumenn hjá slíkum stofnunum fá svo há laun, þá er ekki von, að vel fari. Þetta segi ég ekki til ámælis núv. forstjóra, því að ég hygg, að hann hafi staðið þarna í vegi.

Við vitum það einnig, að á ríkisútgerðinni hefir verið sparað allmikið síðan hún var tekin frá Eimskipafél., svo að allur útgerðarkostnaður og skrifstofuhald er ekki nema 38 þús. kr., eða um 8 þús. kr. meira en sem nemur forstjóralaunum við Eimskipafél. Þetta er í sjálfu sér mjög athugavert. Ég segi nú ekki, að eina ráðið sé að skera niður kostnað, en ég er samt alveg viss um, að hægt er að spara á rekstri fél. með góðum vilja, svo að verulegu nemi. Og ég er viss um það, að ef að þessu er unnið, þá mætti spara hjá Eimskipafél. það, sem vantar, til þess að ósk félagsins sé fullnægt um styrk.

Því ber ekki að neita, að það er rétt hjá hv. þm. Vestm., að viðkomur Eimskipafél. eru fleiri en áður. En þó hygg ég, að víða úti um landið sé viðkomum heldur að fækka. Þar sem ég þekki til fyrir Norðurlandi, hefir viðkomum skipanna verið fækkað á þeim stöðum, sem sízt borgar sig að sigla á, og fjöldi þeirra hafna, sem skip fél. koma á, færir fél. allmikinn hagnað. Allar hinar stærri ferðir fél. vor og haust munu borga sig vel, en hinsvegar mun fél. tapa á sumum ferðum skipanna yfir veturinn og sumarið, og á móti því tapi er ríkissjóðsstyrknum ætlað að vega. — Það er alveg rétt hjá hv. þm. Vestm., að framtíð Eimskipafél. byggist fyrst og fremst á því, að fél. sé látið njóta þeirra flutninga, sem menn hér hafa ráð á, en á því hafa því miður verið misbrestir ekki litlir. Vil ég skjóta því hér fram, að ég teldi vel farið, ef þm. tækju sig saman um það að bæta Eimskipafél. í búi með því að beita sér fyrir því, hver á sínum stað, að fél. nyti allra flutninga þaðan. Gæti og vel komið til álita, hvort ekki væri ef til vill rétt, að löggjafarvaldið gerði einhverjar ráðstafanir til að styðja fél. á þessum grundvelli.

Hv. þm. Vestm. hélt því fram, að ríkisstj. hefði íhlutunarvald um starfsemi Eimskipafél., þar sem einn af stjórnendum fél. og einn af endurskoðendum þess væru stjórnskipaðir. Þetta er rétt, það sem það nær, en eins og allir sjá, væri beint íhlutunarvald ríkisstj. um starfsemi fél. áhrifameira, því að þá gæti ríkisstj. sett fél. sín skilyrði fyrir útborgun ríkisstyrksins. Geri ég ekki ráð fyrir því, að stj. mundi verða ósanngjörn í kröfum sínum eða setja fél. þyngri skilyrði en það gæti með góðu móti uppfyllt, en með þessu hefði ríkisvaldið hinsvegar sterkari aðstöðu til að færa niður þann kostnað við starfsemi fél., sem kynni að vera óþarflega mikill. Það er því alls ekki tilgangurinn með þessum viðauka n. að fara að hafa róttæk áhrif á starfsemi Eimskipafél., eins og komið hefir fram í ræðum sumra hv. þm., heldur aðeins að draga úr þeim kostnaðarliðum í rekstri þess, sem reynast vera óþarflega háir. — N. hefir óbundnar hendur um þessa brtt., enda flytja tveir af nm. till. þess efnis, að þessi viðauki verði felldur niður úr brtt. nefndarinnar.

Þá kem ég að síðustu brtt. á þessu þskj., sem fjallar um það að heimila stj. að gefa Mjólkurfél. Mjöll eftir 15 þús. kr. viðlagasjóðslán ásamt ógreiddum vöxtum. Þetta fél. hefir notið mikils styrks af opinberu fé, svo að ekki verður sagt, að staðið hafi upp á þingið með að styrkja það í starfsemi þess, en hvað þessa eftirgjöf snertir, þá verð ég að telja, að þar sé um mjög varhugaverða stefnu að ræða, þó að henni hafi að vísu skotið hér upp áður, ef fara á að gefa eftir þau lán, sem veitt hafa verið af því opinbera. Bæði mundi það leiða til þess, að þm. yrðu tregari til að vilja veita lán í einu eða öðru skyni, þegar ganga mætti út frá því svo að segja gefnu, að lánið yrði aldrei greitt, og hinsvegar mundi þetta ýta undir aðra til þess að fara hins sama á leit, og yrði þá oft erfitt að neita, ef farið verður út á þessa braut á annað borð. Einn nm. er meðflm. þessarar till., og hefir n. óbundnar hendur um hana, nema hvað ég geri ráð fyrir, að sumir nm. séu till. mótfallnir, af þeim sömu ástæðum, sem ég hefi fært fram.

Um brtt. á þskj. 202 og 205 hefi ég fátt eitt að segja, því að n. hefir ekki gefizt tækifæri til að athuga þær enn. Þó get ég lýst yfir því, hvað snertir fyrri till. á þskj. 205, um 1000 kr. styrk til handa Karlakóri Reykjavíkur til söngnáms, að meiri hl. n. leggur á móti þeirri till., en minni hl. er henni meðmæltur. Síðari till. á þessu þskj. er vatill. við brtt. á þskj. 183, LXV, og fer fram á það, að stj. verði heimilað að ábyrgjast rafvirkjunarlán til handa Ísafjarðarkaupstað, og gengur þessi vatill. út á það, að ábyrgðin sé því aðeins veitt, að lánið sé tekið fyrir milligöngu Landsbankans. Hæstv. fjmrh. er flm. þessarar till. og geri ég ráð fyrir því, að n. sé ljúft að mæla með henni. Eins og ég áður sagði, hefir n. ekki enn gefizt færi á að tala sig saman um brtt. á þskj. 202, og hefi ég því ekkert sérstakt um þær að segja.

Ég hefi þá rakið alla hina helztu þræði þessa máls og drepið á flestar brtt., að vísu stuttlega, því að ella hefði ég orðið allt of langorður. Eins og menn munu hafa tekið eftir, hefir n. ekki séð sér fært að mæla með neinum þingmannatill., enda þykist n. hafa valið úr þeim fjárbeiðnum, sem fyrir lágu, þær sem hún áleit réttmætastar, og tekið þær upp í till. sínar, að svo miklu leyti sem geta ríkissjóðs leyfir. Má vel vera, að n. hafi ekki tekizt þetta val sem skyldi og að sumt nauðsynlegt hafi niður fallið, en slíkt verður alltaf álitamál, sem deila má um fram og aftur.