19.08.1931
Neðri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í B-deild Alþingistíðinda. (1502)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Héðinn Valdimarsson:

Við jafnaðarmenn á Alþingi ákváðum fyrir löngu að samþ. engin önnur tekjuaukafrv. stj. en þau, sem fela það í sér, að tekjunum skuli varið í sérstökum tilgangi, sem við getum fallizt á. Þess vegna vorum við á móti verðtollinum, sem er ekki annað en ranglátur skattur á almenning. Hinsvegar komum við með tekjuaukafrv., þar sem við ætlum okkur að verja tekjunum á sérstakan hátt, ef samþ. yrði, eins og kreppufrv. og tóbakseinkasölufrv. í Ed. Tekjunum skyldi fyrst og fremst varið til atvinnubóta, til verkamannabústaða og byggingar- og landnámssjóðs. Það er allmikils virði, hvernig tekna ríkissjóðs er aflað og varið. Með tóbakseinkasölunni er hægt að fá mikið fé til nauðsynlegra aðgerða án þess að íþyngja almenningi. Við höfum því lagt mikla áherzlu á, að þetta mál kæmist fram.

Hv. þm. Vestm. talaði um samkomulag okkar við framsóknarmenn, sem var ekki í öðru fólgið en því, að framsóknarmenn féllust á frv. okkar. Slíkt samkomulag myndum við gera við hvaða flokk sem væri. En hv. þm. Vestm. veit, að hans flokkur á engan andstæðing nema jafnaðarmenn. Sjálfstæðismenn hafa sýnt það í öllum málum, hvernig þeir hafa gengið með Framsókn. Þessir flokkar hafa staðið saman eins og veggur í aðalmálunum, t. d. um samþykkt verðtollsins og fjárl., enda er það eðlilegt, því að þessa flokka greinir lítt á. Hv. þm. sagði, að það ætti að hækka tóbaksverðið um 15–20%. Þetta er ekki rétt, og stendur ekkert um það í frv., enda þarf ekki hærra tóbaksverð en nú er, til þess að ná inn þeim tekjum, sem ætlazt er til.

Þá var hv. þm. að tala eitthvað um tóbakskóng, og kom þar fram lítil góðgirni. Ég er það mikill tóbakskóngur, að ég á 1/20 í Tóbaksverzlun Íslands h/f. Held ég ekki, að það gæti sveigt mitt atkv., þó að ég ætti hana alla, hvað þá þær litlu tekjur af þessum 1/20. Veit ég, að þeim, sem eiga í Tóbaksverzluninni. er það ekkert fjárhagsatriði, þó að fyrirtækið hafi borið sig mjög vel, enda hefir það sýnt sig hvað eftir annað, að fyrir þeim vakti það eitt með stofnun félagsins, að starfrækja þá verzlun svo lengi sem einkasalan yrði ekki tekin, en sleppa henni fúslega, ef ríkið óskaði að taka verzlunina, eins og vera ber. Við erum þeirrar skoðunar, að það sé vel til fallið, að ríkið reki þetta fyrirtæki, og gengur okkur ekki annað til. E. t. v. myndi hv. þm. Vestm. breyta skoðun sinni fyrir hagsmunasakir. en um þessa starfsmenn verður það ekki sagt.

Nú skyldu allir óspilltir menn halda, að annað eins og það, að starfsmenn hins opinbera tækju umboðslaun frá viðskiptamönnum þess fyrirtækis, sem þeir starfa við, væri brot á hegningarlögunum og þyrfti því ekki nein sérstök ákvæði um það að setja. En hv. 1. landsk. virðist hafa haldið, að þetta væri leyfilegt, og ætti að vera leyfilegt öllum nema þeim, sem störfuðu við þetta væntanlega fyrirtæki. Þeir einir ættu að vera heiðarlegir í þessu efni. Fulltrúi okkar jafnaðarmanna í Ed. og þeir framsóknarmenn, sem þá d. skipa, litu með réttu svo á, að þetta ætti að ganga yfir alla undantekningarlaust, og flutti hv. 2. landsk. frv. um það, að öllum væri bannað að taka umboðslaun í nokkurri mynd, hvort sem væri vegamálastjóri, vitamálastjóri, landssímastj. eða starfsmenn annara opinberra stofnana, og þá ekki frekar borgarstjórinn hér í Reykjavík, sem sannanlegt er um, að hefir tekið á móti umboðslaunum, a. m. k. 2% af öllum brunabótagjöldum í Rvík hjá vátryggingarfél. Albingia. Þetta frv. hv. 2. landsk. sætti engum mótmælum og var því vísað til n., en nú hefir það sýnt sig, hvaða áhugi var á bak við hjá hv. 1. landsk. í þessu máli og reyndar framsóknarmönnum líka, því að n. hefir ekki enn skilað neinu áliti, og hefði þó verið auðvelt að knýja þetta mál fram á einum degi, ef menn hefðu aðeins verið sammála um það. Það virðist því sem hv. 1. landsk. hafi komið fram með þessa till. sína til þess aðeins að geta komið að dylgjum um þá menn, sem áður hafa starfað við tóbakseinkasöluna, sem og þá, sem væntanlega verða starfsmenn þessa fyrirtækis nú, og þá jafnframt til þess að sjá um, að allir starfsmenn þessarar einu stofnunar væru heiðarlegir, þó að aðrir opinberir starfsmenn þyrftu ekki að vera að ómaka sig til þess. — Mér er kunnugt um það frá því, er ég var starfsmaður við þetta fyrirtæki, að Magnús Kristjánsson tók upp þá reglu í fullu samræmi við óskir mínar að skipta aðeins við þau fyrirtæki, sem ekki hefðu umboðsmenn hér á landi, og var þessari reglu fylgt við tóbaksverzlunina undantekningarlaust, bæði af mér og öðrum, og leið oft langur tími þangað til eitt og annað firma hafði sleppt umboðsmönnum sínum hér og með því náð viðskiptum við verzlunina, sem fékk umboðslaunin sjálf með þessu móti. Mér er kunnugt um það, að annari reglu er fylgt í þessu efni við áfengisverzlunina, því að hún skiptir við ekki fá firmu, sem enn hafa umboðsmenn hér á landi, og stinga í eigin vasa því fé, sem þeir fá fyrir milligöngu sína. Mun þessi síðari aðferð allmiklu vinsælli meðal íhaldsmanna, eins og geta má nærri. —

Í Ed. var það ákvæði fellt úr þessu frv., að einkasalan skyldi einnig verzla með eldspýtur. Nú mun það svo, að eldspýtur kosta um ¼ úr eyri upp í 1½ eyri stokkurinn í innkaupi, en útsöluverðið er 5 aurar, svo að hér er um ekki litla verzlunarálagningu að ræða, enda hljóta allir að sjá, að ríkið mundi geta fengið allmiklar tekjur af því að verzla einnig með eldspýtur, án þess að verðið þurfi þó að breytast mikið. Auk þess mundi ríkið geta haft hagnað af þessari verzlun á þann hátt að leigja stokkana undir auglýsingar, eins og tíðkazt hefir í Frakklandi, en þar hefir verið einkasala á eldspýtum frá því á dögum Napoleons og ríkið haft miklar tekjur af, enda engri stj. þar dottið í hug að leggja hana niður. Ég held því, að það hafi verið nokkuð fljóthugsað, þegar þetta ákvæði var numið burt úr frv., en ég mun þó ekki koma með brtt. við frv. nú, til þess að fá þetta leiðrétt aftur, af því að það mundi geta valdið því, að frv. næði ekki fram að ganga á þessu þingi. En e. t. v. mun ég bera fram brtt. í þessa átt á þinginu í vetur.

Ég vil svo að endingu taka það fram, sem ég sagði í upphafi ræðu minnar, að eins og frv. horfir nú við, er ekki einungis um það að ræða að afla ríkissjóði ákveðinna tekna, heldur er einnig svo kveðið á, að þessar tekjur skuli renna til byggingar- og landnámssjóðs að helmingi, og hinn helmingurinn til byggingarsjóða verkamanna. Það er því ekki lítill ábyrgðarhluti fyrir þm. að fella frv., án þess að sjá þó um, að eitthvað komi í staðinn annarsstaðar frá til þessara nauðsynlegu stofnana til þess að bæta hag og húsakynni verkamanna og bænda.