19.08.1931
Neðri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1098 í B-deild Alþingistíðinda. (1503)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Jón Auðunn Jónsson [óyfirl.]:

Ég heyrði ekki þau rök, sem fram voru borin fyrir þessu frv. í Ed., en ég geri hinsvegar ráð fyrir því, að þau hafi verið þessi vanalegu, að tóbakið mundi lækka í verði og ríkissjóður hafa hagnað af að verzla með þessa vöruteg. Þegar einkasalan var afnumin 1925 var það látið klingja af meðhaldsmönnum þessa verzlunarfyrirkomulags, að verið væri að svipta ríkissjóð tekjum svo skipti hundruðum þúsunda, og sumir nefndu jafnvel millj. kr. í því sambandi. Og þeir, sem varfærnastir voru, töldu það með öllu óhugsandi, að ríkissjóður mundi fá meira en sem svaraði 650 þús. kr. í árlegar tekjur með tollinum. enda þótt hann væri hækkaður að miklum mun. En hver hefir svo reynslan orðið í þessum efnum? Hún hefir orðið sú, að yfirburðir hinnar frjálsu samkeppni hafa hvergi komið eins greinilega í ljós eins og einmitt á þessu sviði. Tóbakið lækkaði strax í verði, þegar verzlunin var gefin frjáls 1925, enda þótt tollurinn væri jafnframt hækkaður um þriðjung. Varasjóður einkasölunnar, sem talin var með tekjum hennar, var og ekki til, þegar til átti að taka, því að hann fór allur upp í tapaðar skuldir. Rétt er það að vísu, að ríkissjóður missti tekjuskattsins af þessari verzlun og bæjarfél. hér útsvarsins, en niðurstaðan hefir engu að síður orðið sú, að ríkissjóður hefir haft um 300 þús. kr. meiri árlegar tekjur af tóbakinu í frjálsri samkeppni heldur en með einkasölufyrirkomulaginu. Mér virðist því sem reynslan ætti að kenna mönnum allt annað en að hverfa aftur að þessu fyrirkomulagi. Þegar einkasalan var sett á 1921, var ég einn af þeim mönnum, sem fylgdu því, og lágu aðallega tvær ástæður til þess. Fyrst og fremst það, að sjá þurfti þá ríkissjóði fyrir miklum auknum tekjum, vegna þess að á þinginu 1919 var lagður grundvöllur að miklum auknum útgjöldum fyrir ríkið, og svo hinsvegar af þeirri ástæðu, að hér var um vöru að ræða, sem í sjálfu sér er ónauðsynleg, og því gerði ekki mikinn skaða, þó að eitthvað hækkaði í verði. En þar sem málið liggur nú svo fyrir, að ríkissjóður getur fengið meiri og vissari tekjur án áhættu einkasölunnar, og án þess að þyngja skattborgurum landsins, fæ ég ekki með bezta vilja séð, að nein ástæða sé til að fara að taka þetta fyrirkomulag upp aftur. Ástæður ríkissjóðsins og skattborgaranna mæla með því að hafa frjálsa verzlun á þessari vöruteg. sem öðrum, einkum þar sem sú reynsla hefir fengizt, að óhætt hefði verið að lækka tollinn að mun, frá því sem nú er, án þess að tekjur ríkissjóðs af' tóbakinu mundu rýrna frá því, sem þær voru undir einkasölufyrirkomulaginu.

Þá var sú mótbára borin fram gegn afnámi einkasölunnar 1925, að meiri brögð myndu verða að smyglun í frjálsri samkeppni, af því að erfiðara væri að hafa eftirlit með tollsvikum, og mundi því ríkissjóður missa í af tekjum sínum vegna undanbragða í tollgreiðslum. Nú hélt ég, að öllum ætti að vera það fullkunnugt, að ekki var lítið um smyglun á einkasölutímabilinu. Á Austfjörðum voru t. d. svo mikil brögð að smyglun, að aðrar þjóðir gerðu beinlínis út heil skip, til þess að verzla þar með ólöglegt tóbak. Kvörtuðu menn undan því, að ekki væri hægt að ná í almennilegt tóbak þarna eystra vegna þessa ólöglega tóbaks. Var það ekki sjaldan, að menn sögðu um leið og þeir buðu kunningja sínum í nefið: „Ég veit ekki, hvort þú getur tekið þetta. Það er færeyskur ruddi“. Og það er ekki víst, nema einhverjir kunni að hafa sagt eitthvað á þessa leið nálægt þessum sölum. — Síðan einkasalan var afnumin hefir ekkert heyrzt um undanbrögð frá tollgreiðslum. Stafar það af eðlilegum ástæðum, því að þeir kaupmenn og kaupfélög, sem með þessa vöru verzla, hafa auðvitað eftirlit með því, að aðrir smygli ekki inn tóbaki, af því að það mundi kippa fótunum undan þeirra eigin verzlun. En þegar enginn hefir hagsmuna að gæta um það, að tollur sé greiddur af tóbakinu, er hætt við, að ríkissjóður missi mikils í við þetta, auk þess misréttis, sem það skapar milli manna í landinu. Þykir mér undarlegt, að menn skuli vera svo fastir í „principinu“, þar sem reynslan hefir sýnt, að ríkissjóður fær meiri tekjur af tóbakinu í frjálsri samkeppni heldur en með einkasölufyrirkomulagi, auk þess sem kaupendur vörunnar njóta mikils hagnaðar við það í lækkuðu vöruverði. — Sú ástæða, sem hv. 3. þm. Reykv. virðist gera að aðalatriði í þessu máli, að ná tekjum til byggingarsjóða verkamanna og til býla í sveitum, er einkisnýt, af því að það er ekki rétt að byggja á því eingöngu, að þetta gefi tekjur til vissra framkvæmda, og heppilegra fyrir ríkissjóðinn og gjaldendurna að taka þetta á annan hátt, þannig að ákveðin væri viss upphæð af tekjum ríkissjóðs í þessu skyni. Það er og vitanlegt, að einkasalan verður engin féþúfa, eins og reynslan hefir sýnt og mun sýna.

Frsm. minni hl. fjhn. í þessu máli á þinginu 1925, sem hélt uppi vörnum fyrir einkasöluna, fullyrti þá, að tekjur ríkissjóðs af tollinum einum myndu aldrei fara fram úr 700 þús. kr., enda þótt innflutningurinn ykist um 12%. Hver hefir reynslan orðið? Hún hefir orðið sú, að ríkissjóður hefir fengið 450 þús. kr. meiri tekjur en meðhaldsmenn einkasölunnar 1925 gerðu ráð fyrir, að frjáls verzlun gæfi mest. — Þá hefir það og verið talið einkasölunni til gildis, að með henni væri minna fé bundið í þessari verzlun heldur en í frjálsri samkeppni, og hömpuðu menn um þetta skýrslum, bæði á þinginu 1925 og áður. En gallinn var sá, að í þessum skýrslum voru aðeins taldar birgðir einkasölunnar við árslok, en ekki það, sem einstakir kaupmenn og kaupfélög lágu með, en það er reglan, að smásalarnir liggja yfirleitt með miklu meira af vörum, tóbaki sem öðru. heldur en heildsalarnir.

Það tekur því e. t. v. ekki að vera að minna á það nú, að tóbakstegundirnar verða færri og lakari hjá einkasölunni en verða mundi í frjálsri verzlun. Er það eitt af einkennum og göllum hjá öllum einkasölum. Einkasala hefir ekki neina ástæðu til að hafa fjölbreytt vöruval, og stendur það á sama, þó að hún flytji ekki nema eitt merki inn af hverri tegund. Hún er ein um hituna og þarf því ekki að vanda vörurnar, enda var sú raunin með tóbakseinkasöluna, að tegundir þær, sem hún hafði á boðstólum, voru fáar og misjafnar að gæðum, og sumar miður góðar, svo að ekki sé sagt meira. Hinsvegar er það svo í frjálsri samkeppni, að kaupmenn reyna að leita fyrir sér um sem samkeppnishæfastar vörur, sem skari fram úr vörum keppinautarins bæði að gæðum og verði, og leiðir af þessu, að vöruvalið verður fjölbreyttara og betra. Höfum við Íslendingar á þennan hátt haft ómetanlegt gagn af frjálsri verzlun og ætti að vera óþarfi að minna okkur á það böl, sem öll einokun hefir í för með sér, því að saga okkar hefir að geyma frásagnir um einokunarverzlun í sinni svörtustu mynd, sem var hér lögboðin af erlendu valdi, þegar við urðum að sætta okkur við að kaupa fullu verði allskonar skemmdar vörur, svo sem ormakorn og fúið brauð. Og sama verður reyndin með tóbakseinkasöluna: verri vörur og hærra verð.

Það er vitanlegt, að verðlagið á tóbaki lækkaði um 12%, þegar einkasalan var afnumin 1925, þrátt fyrir það þótt tollurinn væri þá jafnframt hækkaður. Var þó um enga tilsvarandi lækkun á tóbaki að ræða á heimsmarkaðinum, heldur fremur það öfuga. Það sést líka, ef innflutningsskýrslurnar eru athugaðar, hversu kaupmenn og kaupfélög hafa lagt sig mjög í framkróka um útvegun á sem fjölbreyttustum tegundum og beztum. Á síðari árum hafa verið fluttar inn fjölmargar tegundir af vindlum og vindlingum, sem ekki þekktust áður, enda sjást nú ekki sumar þær tóbakstegundir, sem mest voru notaðar fyrir fáum árum, af því að aðrar hafa komið í staðinn, betri og ódýrari. Er þetta sem annað nálega með öllu útilokað með einkasölu.

Svo að ég víki aftur að fjárhagshliðinni, þá má öllum vera það ljóst, að hækkandi verðlag hefir í för með sér minnkandi innflutning, og þó að e. t. v. megi segja, að ekki sé skaði skeður, þar sem tóbakið á í hlut, verða menn þó að taka tillit til þessa, af því að hér er fyrst og fremst um fjárhagslegt atriði að ræða, því að minnkandi innflutningur gefur minnkandi tekjur í sama hlutfalli.

Ég býst við því, að fátt verði um andsvör af hálfu meðhaldsmanna einkasölunnar í þessu máli. Ég býst við, að þeir óski ekki eftir að koma nálægt kjarna málsins, enda ætla ég, að seint takist að réttlæta þetta skref. Ég býst því við, að meðhaldsmenn einkasölunnar taki þann kostinn að þegja um málið og haldi sér að því samkomulagi, sem orðið hefir á milli Framsóknarflokksins og Jafnaðarmannaflokksins í málinu. Ég býst og hinsvegar við því, að þeir framsóknarmenn, sem fylgzt hafa með gangi þessara mála allt frá 1922, líti á, hvað hér er að gerast, og mig skyldi ekki undra, þótt sumir þeirra ættu erfitt með að greiða atkv. með þessu. Það er óhætt að segja, að þetta frv. er ekki borið fram vegna hagsmuna ríkisins eða ríkisborgaranna, en það þýðir auðvitað ekki að ætla sér að koma í veg fyrir, að frv. gangi fram. Er svo jafnan, þegar illt á að ske. En ég vildi þó ekki láta málið fara svo út úr d., að ég lýsti ekki afstöðu minni til þess, og færði til þau rök, sem ekki verður hjá komizt að viðurkenna, að til eru á móti þessu máli.