19.08.1931
Neðri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1103 í B-deild Alþingistíðinda. (1504)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Magnús Guðmundsson:

Út af þeirri óvenjulegu meðferð mála, sem hér hefir verið við höfð, vildi ég leyfa mér að benda á 18. gr. þingskapa, þar sem segir, að ekki megi taka mál á dagskrá af nýju, fyrr en að minnsta kosti 2 nóttum síðar en n. hefir látið uppi álit sitt um málið og nál. hefir verið útbýtt meðal þm. Ég veit að vísu, að ef svo lengi dregst fyrir n. að afgreiða mál, að ekki er hægt að bíða eftir nál., verður að taka málið fyrir engu að síður, en það er ótvírætt brot á þingsköpum að taka mál á dagskrá, sem ekki hefir verið nema 2–3 daga í n. Það er því brot á þingsköpum að taka málið strax á dagskrá.

Annars vildi ég beiðast skýringar af hæstv. stj., ef einhver er hér við úr henni, á því, hvernig skilja beri ákvæði 14. gr. þessa frv. Mér finnst, að skilja megi þessi ákvæði á þá leið, að tekjunum af einkasölunni sé ætlað að koma upp framlög ríkissjóðs til byggingarsjóða verkkamanna og til byggingar- og landnámssjóðs. Hinsvegar skildist mér það á hv. 3. þm. Reykv., að hann áliti, að tekjur tóbakseinkasölunnar ættu að bætast við framlög ríkissjóðs til þessara stofnana. Það virðist því mega skilja þessi ákvæði á tvennan hátt. Eigi tekjur þessar að bætast við framlag ríkisins til hinna umræddu stofnana, þá er blátt áfram verið að selja einkasöluna á leigu þessum stofnunum. Virðist þá eðlilegra, að þessar stofnanir rækju einkasöluna sjálfar, og ríkið kæmi þar ekki nærri. Eigi aftur á móti að skilja ákvæði þessi á hinn veginn, þá er mjög hæpið, að þau yrðu til hagsbóta fyrir byggingarsjóði verkamanna og byggingar- og landnámssjóð. Það minnsta, sem verður að krefjast, þegar lög sem þessi eru sett, er það, að hugsunin sé orðuð svo skýrt, að ekki sé um að villast, hvað löggjafinn vilji.

Hvað sem annars má um tóbakseinkasöluna segja, þá er það alveg víst, að hún veldur því, að á fyrsta ári hennar verður miklu minna flutt af tóbaki til landsins heldur en ef verzlunin væri frjáls áfram. Það er því gefið mál, að á árinu 1932 fengi ríkissjóður miklu minni tekjur af tóbakstolli heldur en áður, ef einkasalan væri sett á stofn. Mér hefir nú virzt á hv. þm. yfirleitt, að þeir álíti, að ekki líti neitt sérstaklega vel út fyrir ríkissjóði á árinu 1932. Mér finnst það því vera undarlegt alvöruleysi, ef meiri hl. þingsins fer nú að gera sér leik að því að minnka tekjur ríkissjóðas á árinu 1932, þar sem vitanlegt er, að mikill tekjubrestur muni verða á því ári. Það er ekki hægt að taka hv. þm. alvarlega, þegar þeir eru að tala um hið yfirvofandi harðæri og vandræðatíma og koma um leið með slíkt frv. sem þetta. Auk þess er ekki hægt að reka þessa verzlun nema því að eins, að lagt sé til hennar nokkurt rekstrarfé, og ég gæti trúað, að ríkissjóður eigi ekkert sérstaklega hægt með að gera það. Þá virðist mér, að brtt. þær, sem liggja fyrir við 3. umr. fjárl. í Ed., muni ekki eiga neinn þátt í því að bæta hag ríkissjóðs á árinu 1932, því að þar á meðal eru ýmsar útgjaldafrekar till., svo sem till. frá hæstv. forsrh., um 300 þús. kr. framlag til atvinnubóta. Ótti sá við tekjurýrnun, sem fram kom hjá hv. flokksmönnum hæstv. stj. við afgr. fjárl. hér í Nd., virðist nú alveg horfinn, þar sem ofan á frv. þetta, sem hlýtur að leiða af sér rýrnun tóbakstollsins á árinu 1932 er bætt till um 300 þús. kr. til atvinnuleysisstyrkja.

Ég verð því að líta svo á, sem það beri vott um allmikla léttúð hvað afkomu ríkissjóðs á árinu 1932 snertir, að fara nú að samþ. þetta frv. Þó vil ég taka það fram, að ef það er meiningin, að fé það, sem inn kemur hjá tóbakseinkasölunni, skuli ganga upp í hið lögákveðna gjald ríkissjóðs til byggingarsjóða verkamanna og byggingar- og landnámssjóðs, þá er hér nokkru öðru máli að gegna, en það er þó víst, að tekjur ríkissjóðs af tóbakstolli myndu verða miklu minni á árinu 1932 heldur en ef engin einkasala væri sett á stofn.

Ég vil að lokum skjóta því til hæstv. forseta, hvort honum finnist ekki. samkv. l8. gr. þingskapanna, ástæða til þess að leita afbrigða um það, hvort mál þetta megi liggja hér fyrir til umr. Hið sama á við um það mál, sem er hér 4. mál á dagskrá.