19.08.1931
Neðri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í B-deild Alþingistíðinda. (1509)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Mér er það að vísu ljóst, að ekki þýðir að deila við dómarann, en ég vil þó leiða athygli hæstv. forseta að því, að allur andi þingskapanna er a. m. k. brotinn með því að taka mál þetta nú til meðferðar í hv. d. Mér skilst, að þegar d. vísar máli til n., til þess að það sé tekið þar til athugunar, þá hafi d., bæði meiri og minni hl. hennar, afsalað sér meðferð málsins um óákveðinn tíma í hendur n. Og mér skilst. að d. geti ekki tekið málið úr höndum n., nema því aðeins, að meðferð þess hafi að einhverju leyti verið vitaverð hjá n. Fjhn. fékk þetta mál í hendur á föstudag, en þann dag var þingfundur fram á nótt. N. hélt svo fund á mánudag, sem ekki er fundardagur fjhn., og á þriðjudag, en komst þá ekki yfir þetta mál, og getur því ekki afgr. það fyrr en á morgun. Mér þykir það því vera brot á anda þingskapanna, svo ekki sé sterkara að orði kveðið, er hæstv. forseti tekur málið úr höndum n., að sumum nm. nauðugum að minnsta kosti. Tilgangur þingskapanna er sá, að málunum sé vísað til n., svo að þau séu athuguð þar af báðum aðilum, meiri og minni hl. Og þingsköpin tryggja meðferð málanna einnig á þann hátt að tryggja dm. vissan frest til þess að athuga málin, eftir að þau eru komin úr n. Hér er svo fjarri því, að þessum fyrirmælum sé fullnægt, að hvorki hefir n. fengið tækifæri til þess að gefa út nál. um málið, né hv. dm. frest til þess að athuga það.

Álíti hæstv. forseti, að nauðsyn sé til þess að flyta málinu, þá er sú leið ein sjálfsögð, að leita um það afbrigða frá þingsköpum hjá hv. deild.