22.08.1931
Neðri deild: 36. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í D-deild Alþingistíðinda. (1521)

388. mál, ráðstafanir gegn dýrtíð og atvinnuleysi

Flm. (Sveinbjörn Högnason):

Þess gerist engin þörf að fjölyrða um innihald eða tilgang þessarar þáltill. Það er öllum hv. þdm. kunnugt, að flest þau frv. og till., sem borin hafa verið fram hér á þinginu um ráðstafanir gegn dýrtíð og atvinnuleysi, hefir dagað uppi vegna þess hve starfstími þingsins er stuttur, og einnig vegna þess, að málin hafa yfirleitt ekki verið svo vel undirbúin sem bezt verður á kosið. Hinsvegar hefir það komið greinilega í ljós, að allir hv. dm. skilja það, að einhverra ráðstafana er þörf í þessu efni. Bera ýms frv. ljósastan vott um það, og einnig margar till., sem fram komu við fjárlagafrv.

Við flm. þessarar till. lítum svo á, að deildin geti tæpast skilið við þessi mál án þess að láta þá ósk í ljós, að þau verði athuguð og undirbúin til næsta þings, og að þá verði lagðar fram till. um, hvernig heppilegast sé að ráða fram úr þessum vandamálum.

Það er tekið fram í till., hvað það sé, sem sérstaklega þurfi að athuga. Í fyrsta lagi eru það möguleikar til lækkaðrar húsaleigu. Öllum hv. þdm. er kunnugt, hve hin háa húsaleiga hvílir þungt á fólkinu, sérstaklega hér í Reykjavík, og hvernig hún hjálpar til þess að viðhalda dýrtíðinni í landinu. Það hefir komið hér fram frv., sem gengur í þá átt að lækka húsaleiguna, en það hefir dagað uppi. Ætti að rannsaka betur þær aðferðir, sem þar er bent á, og þá einnig aðrar leiðir í þessum efnum.

Í öðru lagi er það óeðlilega hár verzlunarkostnaður innlendrar og erlendrar vöru. Það er vitanlegt, að hjá okkur er verzlunarkostnaðurinn mjög hár, og kemur það ljósast fram á slíkum tímum sem nú eru. Það er mikið millibil milli þess, sem framleiðandinn fær, og þess, sem varan er seld fyrir á markaðinum. Ég tek t. d., að mjólkurframleiðendur austanfjalls fá ¼ af því, sem varan er seld fyrir. Það má líka benda á, hvað framleiðendur fiskjarins fá fyrir hann og svo fyrir hvað hann er seldur til neytendanna hér í bænum. Hann kemur víðar fram, þessi óeðlilegi verzlunarkostnaður, og er því nauðsynlegt að taka hann til rannsóknar og reyna, hvort ekki er hægt að lækka hann, svo að það verði til þess að draga úr áhrifum dýrtíðarinnar í landinu.

Um c-lið till. er það að segja, að þar er gert ráð fyrir, að athugaðar séu leiðir til þess að draga úr og vinna gegn hinu yfirvofandi atvinnuleysi.

Það er búið að ræða svo mikið um þetta mál, að öllum hv. þdm. er kunnugt, að ástandið getur orðið allalvarlegt, ef ekki er eitthvað gert til þess að bæta úr því í náinni framtið. Okkur flm. finnst sjálfsagt, að þetta atriði fari til rannsóknar og athugað sé, hvað hægt er að gera til þess að afstýra vandræðum. Það er nokkurs virði, að hv. d. láti í ljós vilja sinn í þessum efnum, áður en hún lýkur störfum. Og það er ekki hægt að segja annað en þessum málum hafi verið veitt flaustursleg afgreiðsla á þinginu, ef þannig er hlaupið frá þeim, að enginn vilji og engin ákvörðun hafi komið fram.