22.08.1931
Efri deild: 38. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í D-deild Alþingistíðinda. (1527)

416. mál, byggingarfélög iðnaðarmanna

Flm. (Jón Baldvinsson):

Ýmsir menn úr stéttarfélagi iðnaðarmanna hér í bæ hafa beðið mig að bera hér fram viðauka við lögin um verkamannabústaði, sem gerði þeim kleift að koma sér upp byggingarfélögum, er hefðu stuðning frá hinu opinbera.

Ég hefi ekki séð mér fært að koma þessu í samband við breyt. á l. um verkamannabústaði, sem nú er orðið að lögum, enda myndi þurfa miklar breyt. og óvíst, að hægt væri að samrýma byggingarfélag verkamanna og byggingarfélag iðnaðarmanna. Myndi og sennilega vera hægt að krefja iðnaðarmenn um hærri framlög heldur en gert er í lögunum um verkamannabústaði. Væri það iðnaðarmönnum mikill stuðningur, ef hægt væri að tryggja þeim 1. veðréttar lán út á hús þau, sem byggingarfélag þeirra kæmi upp.

Ætlazt er til þess, að stjórnin hefji undirbúning löggjafar um þetta efni í sambandi við stéttarfélög iðnaðarmanna í Rvík og annarsstaðar, þar er til næst.

Stéttarfélög iðnaðarmanna eiga sér nú sum hver byggingarsjóð og eiga auk þess ef til vill aðgang að ýmsum sjóðum, sem kynnu að lána fé út á byggingar. En það, sem með þarf, er að skipuleggja, hvernig hægt sé að koma þessum byggingum upp með stuðningi hins opinbera á svipuðum grundvelli sem verkamannabústöðunum.

Ég vænti þess, að hæstv. stj. taki þetta mál til athugunar og leiti samvinnu við stéttarfélög iðnaðarmanna. Vil ég þá sérstaklega benda á, að eitt félag hér í Reykjavík hefir hafið undirbúning í þessu máli með því að koma upp húsbyggingarsjóði og á aðgang að nokkru fé. Þetta er prentarafélagið. Ég býst við, að það standi svipað á um fleiri stéttarfélög, en þau vantar aðeins hvatningu og löggjöf um, hvernig þau eigi að haga sér til þess að hrinda byggingum af stað.

Með þessari till. er skorað á stj. að hefja undirbúning að máli þessu. Væri æskilegt, að honum væri lokið fyrir næsta þing, þótt það sé ekki tekið fram, hvorki í till. sjálfri eða grg. Slík löggjöf yrði til þess að auka húsnæðið í kaupstöðum landsins, en það er víða tilfinnanlega lítið.