21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í B-deild Alþingistíðinda. (1538)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Jóhann Jósefsson:

Við 2. umr. þessa máls átti ég orðaskipti við hv. 3. þm. Reykv. m. a. um tóbakseinkasöluna, en ég var kallaður frá, svo ég gat ekki gert aths. við ræðu hans þá.

Það er útlit fyrir, að það, sem ég sagði þá, hafi komið nokkuð ónotalega við kaun jafnaðarmanna, því að nú er farið að elta kjördæmi mitt með rógi í Alþýðublaðinu. Er þar fluttur sami boðskapur og Tíminn hefir verið að gæða lesendum sínum á öðru hvoru, að Vestmannaeyingar séu á hausnum fjárhagslega o. s. frv. Tíminn hóf þessa rógsherferð sína gegn kjördæmi mínu eftir að við hv. 2. þm. Reykv. og ég fluttum till. um fjárframlag til atvinnubóta í kaupstöðum. Nú siglir Alþýðublaðið í kjölfar Tímans að því er virðist, af því að ég hefi risið gegn tóbakseinkasölunni. Ég get þessa til að benda á, hve heiðarlegar bardagaaðferðir þessara blaða eru og þeirra manna, sem að þeim standa.

Það er áreiðanlega ekki ráð gegn kreppunni og atvinnuleysinu, að vissir kaupstaðir séu lagðir í einelti með rógi um fjárhag þeirra. Og sízt situr það á jafnaðarmönnum, sem þykjast bera það fólk fyrir brjósti, sem kreppan kemur harðast niður á. Ekkert er eins vel til fallið að hnekkja lánstrausti hvers byggðarlags eins og það, að breiða út þann orðróm, að fjárhagur þess sé slæmur. Annars er sannleikurinn sá, að Vestmannaeyjar eru ekki verr settar fjárhagslega en aðrir kaupstaðir landsins. Bæjarvinna þar hefir verið hlutfallslega meiri í sumar heldur en í Reykjavík. Ég vil nota þetta tækifæri til að mótmæla þessum rógi og benda þm. Framsóknar- og Jafnaðarmannaflokksins á, hvílík skemmdarverk blöð þeirra eru að vinna.

Hv. 3. þm. Reykv. var hinn snúðugasti í umr. og sagði, að hér væri hvorki um „spekulationir“ né hrossakaup að ræða, heldur vekti það fyrir forvígismönnum tóbakseinkasölunnar, að afla fjár í byggingar- og landnámssjóð og til verkamannabústaða. En það er fyrst nú á þessu þingi, að sú hugmynd hefir komið fram, að arðurinn af tóbakseinkasölunni rynni í þessa staði, en hinsvegar hefir þessi hv. þm. barizt fyrir því þing eftir þing, að ríkið tæki birgðir tóbaksverzlunar hans á sig. Til hvers átti þá að koma einkasölunni á? Hann sagði 1928, að tóbakseinkasalan ætti að gera tvennt, að spara mannahald við tóbaksverzlunina í landinu og gefa ríkissjóði auknar tekjur. Nú hefir verið sýnt fram á það með óyggjandi rökum í nál. minni hl., að tekjur ríkissjóðs af tóbaksverzluninni hafa verið meiri í frjálsri verzlun en einkasölu. Meðan ríkið hafði tóbakseinokun árin 1922–25 var meðaltollur og verzlunarhagnaður um 750 þús. á ári; þar frá dregst svo rekstrarkostnaður, sem var hátt á annað hundrað þús. kr. á ári. En frá 1926 til 1929, tímabilið, sem verzlunin hefir verið frjáls, hefir ríkissjóður haft 1141 þús. kr. í tekjur af verzluninni að meðaltali. Þessu hefir meiri hl. ekki gert minnstu tilraun til að hnekkja. Gott dæmi upp á athugun þá, sem þetta mál hefir fengið hjá fylgismönnum einkasölunnar, er nál. meiri hl. í Ed., þar sem engar tölur eru tilgreindar, heldur aðeins lýst yfir því í fjórum línum, að „meiri hl. telji heppilegt, að ríkið reki þessa verzlun“. Hinsvegar hefir minni hl. fært óhrekjandi rök fyrir því, að þessi ráðstöfun muni stórskaða ríkissjóðinn.

Hv. 3. þm. Reykv. hefir orðið skrafdrjúgt um atvinnuleysi á þessu þingi, og skal ég ekki lá honum það. 1928 hélt hann því fram, að fjórum sinnum fleiri menn ynnu að tóbaksverzlun hér á landi en þyrfti, ef einkasalan væri tekin upp. Honum var þá bent á af hv. 4. þm. Reykv., að þetta væri í sjálfu sér ekkert athugavert, ef varan gæfi samt sem áður hærri tekjur í ríkissjóð og væri ódýrari en í einkasölu. Hafi þetta verið rétt hjá þessum hv. þm. 1928, þá hlýtur afleiðingin af tóbakseinkasölunni nú að verða sú, að þessir menn bætist í atvinnuleysingjahópinn. Auk þess missa hér bæir og kauptún tekjustofn til útsvarsálagningar, og um leið er dregið úr þeim möguleika, að hægt verði að leggja fé fram til atvinnubóta. Þetta eru bjargráð hv. 3. þm. Reykv. í atvinnuleysinu.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að ég og mínir líkar afgreiddu málin hér á þingi með eigin hagsmuni fyrir augum. Eftir að hann var búinn að gefa skýrslu um, hvað hann ætti í Tóbaksverzlun Ísl., sem var raunar óþarfi, af því að enginn var að spyrja hann um það, og lýsa yfir því, að hún væri gróðafyrirtæki, sagði hann, að það væri ekki fjárhagslegt atr. fyrir eigendur verzlunarinnar, hvort tóbakseinkasala yrði lögfest eða ekki. Ég veit ekki, hvað hv. þm. á við með þessu. Annaðhvort er auðvald þessara manna svo sterkt, að þá munar ekki um gróðann af tóbaksverzluninni, eða átti hann við það, að séð muni verða um, að hagsmunir þeirra verði ekki fyrir borð bornir? Hin síðari tilgáta kemur ágætlega heim við það, að felld var till. í Ed., sem gekk í þá átt að banna væntanlegum starfsmönnum verzlunarinnar að taka við umboðslaunum. Þetta gæti gefið skýringu á því, að hv. þm. segir, að það sé ekki fjárhagslegt atr. fyrir sig, þótt tóbaksverzlun hans sjálfs verði að þoka fyrir einkasölunni.

Hv. þm. var forstjóri eða mjög nálægt því að vera það í landsverzluninni gömlu, og þegar hún var lögð niður, eignaðist hv. þm. öll sambönd hennar í tóbaki. Gæti svo farið, þegar þessi nýja tóbakseinkasala yrði lögð niður, að honum hefði tekizt að bæta þeim firmum við sig, sem hann hefir ekki náð ennþá.

Hv. þm. vildi ekki heyra nefnt, að banna ætti með lögum að taka umboðslaun. Hinsvegar nefndi hann einhverja embættismenn hér í bænum, er gerðu það. Ef það er satt, að ósiður þessi eigi sér stað, er því meiri ástæða til að leggja lögbann við því. Við hinu verður ekki gert, þótt útlend firmu borgi umboðsmönnum sínum hér umboðslaun, enda ekkert við því að segja. Hitt er ósómi, að opinberir starfsmenn taki umboðslaun af þeim viðskiptum, sem þeir annast. En þetta hafa framsóknar- og jafnaðarmenn alls ekki viljað fyrirbyggja.

Verði tóbakseinkasala sett á stofn. verður hún að kaupa tóbaksbirgðir þær, sem til eru í landinu um áramót, og því auðvitað fyrst og fremst birgðir Tóbaksverzlunar Íslands og e. t. v. skuldir líka. Það getur verið, að hv. 3. þm. Reykv. finnist þetta ekki fjárhagslegt atriði, en óneitanlega er þægilegt fyrir þá, sem liggja með mikið af gömlum og misjöfnum birgðum að geta selt þær í einu lagi, og það ekki lakari kaupanda en ríkinu. Ef þetta er ekki fjárhagslegt atriði fyrir eigendur Tóbaksverzlunar Íslands, þá eru þeir meiri „matadorar“ en almenning grunar.

Það hefir verið sannað í umr., og reynslan hefir sýnt það, að frjáls verzlun hefir gefið ríkissjóði aukinn arð og gert tóbakið ódýrara og betra. En af afskiptum jafnaðar- og framsóknarmanna hefir leitt minni tekjur fyrir ríkissjóð og dýrara tóbak. Síðan þetta mál fékk byr undir báða vængi hjá Framsókn, hefir dregið allan andstöðumóð úr socialistum. Þeir voru stundum áður með þjóst við stjórnina, en nú leggur frá þeim blíðan andvara þegar þeir tala til hennar, eins og mátti heyra í dag, þegar stjórnin tók sæti, og ekki síður, þegar þessi merkilega fyrirspurn hv. 3. þm. Reykv. um skeytasendingar milli konungs og forsrh. kom fram. Það fer ekki illa á því, að tvö innsigli séu sett á hinn nýja bræðrasamning socialista og Framsóknar, sama dag og Jónas Jónsson sezt aftur í ráðherrastólinn. Annað er innleiðsla tóbakseinkasölunnar og hitt það, að fulltrúi jafnaðarmanna í Ed. gengur á mála hjá stjórninni til að hjálpa henni að bjarga tveim þýðingarmiklum frv., sem annars hefðu fallið, fjáraukalögunum og landsreikningnum fyrir 1929. Það er ekki furða, þótt hæstv. forsrh. brosi í kampinn. Framsókn hefir unnið mikinn sigur. Þeir hinir sömu menn, er hafa verið að belgja sig undanfarið og heimta að vita, hvenær stjórnin kæmi, nefnilega þingmenn jafnaðarmanna, (JAJ: Til að þeir vissu, hverjum þeir ættu að selja sig) hafa nú hlaupið frá allri andstöðu við þessa stj., sem þeir þykjast þó vera á móti. Tóbakið er m. a. nóg til að lækka rostann í þessum „andstæðingum“ stjórnarinnar. Það er ekki furða, þótt hæstv. forsrh. kými að svona stjórnarandstæðingum, sem alltaf eru falir fyrir fríðindi þau, er valdhafarnir vilja láta þeim í skaut falla.