06.08.1931
Neðri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

1. mál, fjárlög 1932

Jóhann Jósefsson:

Ég saknaði þess í ræðu hæstv. forsrh., sem nú er einnig fjmrh., að hann gaf mér engin andsvör við þeirri fyrirspurn, sem ég beindi til hans um ástæðurnar fyrir því, að hæstv. ríkisstj. hefir virt till. fjvn. á þinginu 1930 að vettugi, eða því sem næst, að því er lagningu nýrra símalína snertir, þar sem hæstv. stj. sinnir ekki till. meira en svo, að hún lætur gera eina einustu símalínu af þeim 7, sem n. lagði til, að gerðar væru. En hæstv. stj. hefir hinsvegar látið leggja nýja símalinu, sem engin heimild er til, hvorki í fjárl. né frá þingsins hálfu.

Ég bjóst við, að hæstv. ráðh. myndi gefa upplýsingar um, hvort þörf þeirra var ekki eins mikil og fjvn. áleit, eða hvað til bar. Þegar þess er gætt, að hæstv. stj., eins og brtt. frá hæstv. fjmrh. sýnir, vill láta selja sér sjálfdæmi meira en venja er til um fjárveitingar, er ástæða til þess að spyrja hæstv. ráðh., af hverju sá misréttur stafi að því er þessar símalínur snertir, er ég hefi bent á. Mér er t. d. sagt um eina þessa símalínu, línuna sunnan megin Arnarfjarðar, að fyrirhugað hefði verið af landssímastjóra og fjvn., að hún lægi þar sem 22 býli og margir útróðrarstaðir eru, en hún hafi ekki verið lögð þar, heldur önnur lína hinumegin fjarðarins, þar sem í hæsta lagi 5–6 bæir njóta hennar.

Hv. frsm. fjvn. var óánægður með mig fyrir aðfinnslur mínar út af fjarveru hans úr deildinni þegar fjárl. eru rædd. Hv. þm. þykir e. t. v. ljótt, að það skuli vera „dokumenterað“, að hann vanræki að hlusta á umr. um brtt. við fjárl. En mig hefir hann um ekkert að saka. Ég hefi aðeins bent á þá staðreynd, sem fyrir lá.

En hvað þá aths. hv. frsm. snertir, að hann hafi ekki þurft að vera hér við í fyrrakvöld, því að það, sem fram hafi komið frá mér, hafi hvorki verið nýtt né merkilegt, þá er það vindhögg, því að það var alls ekki ég, sem talaði. Það voru allt aðrir og þ. á m. flokksm. hv. frsm., sem töluðu. Ég hefi aðeins bent á, hver ósómi þetta er þinginu. Hv. frsm. má gjarnan reiðast þessu, en ég hygg, að Alþ. og þjóðin í heild sinni vænti allt annarar framkomu hjá hv. frsm. en verið hefir. Annars skal ég geta þess, hv. frsm. til lofs, að þegar ég hefi talað, hefir hann hlýtt rólegur á ræður mínar, eins og honum er bæði rétt og skylt.

Það þykir bæði vegsauki og vandastarf að vera frsm. fjvn. En það verður að ætlast til þess, að sá einn maður sé til þess valinn, er nennir að vera hér viðstaddur til þess að hlusta á mál manna. Ég veit, að það er þreytandi að hlusta á ræður ýmislegs efnis og hv. frsm. er vorkunnarmál, þótt hann þreytist á því eða jafnvel dotti, en skárra er það en vísvitandi að flýja þingsalinn.

Hv. frsm. minntist hér m. a. á brtt. mína um styrk til sumarskýlis símamanna í Reykjavík. Það er einkennilegt við þessa till., að hún er flutt af 3 þm., sínum úr hverjum flokki, þ. e. þeim hv. þm. Seyðf., hv. þm. V.-Sk. og mér. Þessi till. snýst ekki um hærri upphæð en í hæsta lagi 4000 kr., en til vara 3000 kr. Hv. frsm. fann þessari till. það til foráttu, „að hana bæri ekki rétt að“, eins og hann orðaði það. Hann sagði, að símamenn hefðu átt að snúa sér til landssímastj. um þetta efni.

Það er vitanlegt, að hér liggja fyrir margar brtt., sem snúast um miklu hærri upphæðir en þessi till. Ég veit ekki, hvernig á að skilja það hjá hv. frsm., að símafólkið hefði sérstaklega átt að snúa sér til ríkisstj. í þessu efni. Í skriflegri umsókn frá símamönnum, sem stíluð er til fjvn., komast símamenn svo að orði, að þeir vonist til þess, að þing og stj. styðji málaumleitan þá, sem hér um ræðir. Símamenn snúa sér því til stj. um leið og þeir snúa sér til Alþingis. En hvað er það þá, sem hv. frsm. fjvn. meinar með þessu? Er það það, að hæstv. stj. hefði átt að gera ein út um þetta mál án íhlutunar þingsins, eða dettur hv. frsm. fjvn. í hug að halda því fram, að hér sé um svo þýðingarmikla ráðstöfun á ríkisfé að ræða, að þörf sé á að snúa sér sérstaklega til ríkisstj. í þessu efni. Það er einnig eftirtektarvert, að hv. frsm. hafði ekki þenna formála, að „till. bæri ekki rétt að“, um neina aðra brtt. en þessa. Það má vel vera, að hæstv. stj. hefði gert þetta eftir eigin geðþótta, en ég held, að mál þetta hafi farið rétta boðleið. Félag ísl. símamanna sendir fjvn. Alþingis bréf í fullu trausti þess, að þing og stj. taki það til greina. En hv. n. sér sér ekki fært að taka þetta til greina, og var það því tekið upp af okkur 3 þm., sínum úr hverjum flokki. Ef þetta erindi ber ekki rétt að, hvernig er það þá með aðrar brtt. hér? Eru þær þá ekki allar komnar skakka boðleið eftir hans dómi, hv. frsm.?

Í sambandi við till. fjvn. og ummæli hv. frsm. um ýms önnur atriði, sem eru miklu þýðingarmeiri og stærri, finnst mér eftir orðum hans að dæma, að hann sé nægilega stór fjmrh. til þess að geta till. um svo smávægilegt atriði sem þetta. án þess að því sé vísað til stj.

Hv. frsm. sneri dálítið út úr því, sem ég sagði um styrkinn til Stórstúkunnar. Ég sagði aldrei, að það yrði til þess að kippa öllum bindindismálum í liðinn, þótt styrkur sá fengist, sem þeir hv. 4. þm. Reykv. og hv. þm. Borgf. fara fram á. Hitt sagði ég, að ástandið í þessu efni væri alls ekki þannig, að rétt væri að svipta stúkuna þeim styrk, sem hún hefir. En áleit frekar ástæðu til að styrkja starf hennar meir en áður hefir verið, þar sem vínnotkun í landinu fer vaxandi og þar með tekjur ríkissjóðs af víneinkasölunni. Hv. frsm. sagði, að ég hefði verið að „mála fjandann á vegginn“ í þessu efni. Þetta er rétt hjá hv. frsm. að því leyti, að ég benti á þá staðreynd, að vínnotkun færi vaxandi og bindindisfélögin minnkuðu starfsemi sína og vínið sæist helzt til mikið hér í útlendum skipum rétt við nefið á ríkisstj. Ég gæti bætt miklu við þetta, ef hv. frsm. efast um, að ástandið sé svo sem ég hefi nú sagt. Ég hefi skýrt frá staðreyndum, sem þrífast í skjóli stj. þeirrar, sem hv. frsm. ber ábyrgð á með öðrum sínum nótum; ef það er að „mála fjandann á vegginn“, þá verður það svo að vera, en ég hefi ekki gert hann svartari en hann er, og hægt er að sjá hann, ef hv. frsm. og aðrir, sem vaða í villu og svima. vilja sjá. Ekkert hefir breytzt til batnaðar með bindindisstarfsemi í landinu á undanförnum árum. Það er þvert á móti.

Ég vil bæta því við, hv. frsm. og öðrum, sem hér ráða, til athugunar, að æskulýðnum í landinu er nú búin stór hætta af því, hvernig nú horfir með vínnautn og bindindismál. Síðan bindindismenn tóku upp á því að trúa algerlega á hannlögin til viðreisnar bindindi í landinu, hafa þeir orðið að slaka til í bindindisstarfsemi og ber vott um það, hvað fækkar mikið meðlimum í stúkunum. Og síðan það opinbera fór að gera sér leik að því að gera vínið gómsætt og láta það freista fólksins meir en áður var gert (sbr. blöndunina), hefir vínnautnin farið stórvaxandi hér á landi.

Hv. frsm. benti á, að reseptagjöf lækna hefði minnkað frá því sem áður var. Það getur verið, að með reglugerð ofan á reglugerð megi minnka reseptagjöf, enda mun svo langt gengið nú að sumir, sem raunverulega þurfa áfengi í læknislyf, eiga erfitt með að fá það. En þótt reseptagjafir lækna hafi nokkuð minnkað, vegur það ekki á móti því, sem bruggun víns hefir aukizt nú síðustu ár og er sagt, að það sé einkum til sveita, sem það eigi sér stað. Hvað svo sem hv. frsm. segir um þetta og hve mikið, sem um þetta er skrifað í hina nýju bók ríkisstj., sem almennt er kölluð „Verkin tala“, tala hagskýrslurnar og það, sem maður sér daglega, á móti hv. frsm. í þessu efni.

Ég hefi áður talað hér um brtt. hv. þm. Borgf. og hv. 4. þm. Reykv. um Eimskipafél. Hv. frsm. fór ýtarlega út í þetta mál og fylgdi stefnu hæstv. ríkisstj., að vilja fá hlutabréf fyrir framlag ríkissjóðs. Það var margt í ræðu hv. frsm., sem rétt væri að athuga. og ég get fallizt á það með hv. frsm., að það er nauðsynlegt fyrir Eimskipafélagið að haga rekstri sínum þannig, að enginn þurfi að hneykslast á of mikilli eyðslu. En ég get á hinn bóginn ekki séð, að þótt ríkið léti að nafninu til gefa sér út hlutabréf fyrir þann styrk, sem Eimskipafél. fær, eða þótt hæstv. stj. fái einhverja klausu setta inn í fjárl. um aðhald frá ríkisstj. hálfu með rekstri félagsins, að það hafi nokkra þýðingu.

Hér liggja fyrir reikningar og skýrslur Eimskipafél. fyrir starfsárið 1930. Þeir eru undirskrifaðir af stjórn fél., þ. á m. af fulltrúa ríkisstj., og þessir reikningar hafa verið endurskoðaðir af endurskoðunarmönnum félagsins, þ. á m. af fulltrúa ríkisstj., án þess að nokkur aths. hafi verið gerð um þá. Hvorki stjórnskipaður meðlimur stjórnarinnar né stjórnskipaður endurskoðandi hafa gert við þetta nokkrar athugasemdir, svo að séð verði. Ekki verður það heldur séð á fundargerðum, að hinn stjórnskipaði meðlimur stj. hafi gert athugasemdir við reksturinn. Hér væri um allt annað að ræða, ef fyrir lægju rökstuddar aths. frá mönnum í stj. Eimskipafél. um misfellur á rekstrinum.

Samþykki þess, að ríkið fái meiri íhlutunarrétt um rekstur Eimskipafél., sýnist ekki tímabært. Ég er ekki trúaður á það, að ríkisstjórnin, engin ríkisstjórn, og þá sérstaklega ekki sú, sem nú situr, fái læknað neinn halla, sem vera kynni á rekstrinum. Ég trúi því ekki, að nein pólitísk stjórn fái þar miklu um þokað.

Félagsstjórnin ætti sjálf að taka það hlutverk að sér. En aths. eins og þær, sem hv. frsm. fjvn. gerði, hljóta að skapa nokkurt aðhald að stj Eimskipafélagsins, ef misfellur væru á rekstri þess. Þær umr. ættu að geta gert það að verkum, að Eimskipafél. skirrðist við að leggja út í óþarfan kostnað.

Ég ætla áður en ég sezt niður að minnast á brtt., þar sem farið er fram á ábyrgð ríkissjóðs á 600 þús. kr. til Ísafjarðarkaupstaðar til rafvirkjunar, gegn tryggingum, sem ríkisstjórnin metur gildar. Ég tek það fram, að ég er þessari ábyrgð meðmæltur og finnst, að hún eigi rétt á sér. Og það er öll þörf á þessari rafvirkjun. En mér þóttu meðmæli hæstv. forsrh. í þessu máli harla einkennileg.

Í fyrsta lagi, þegar hér kom til umr. virkjun Sogsins og ríkisábyrgð á því, þá var allur flokkur núv. stjórnar á móti ábyrgðinni. Höfuðmótbáran, sem þá var notuð, var sú, að ef gengið væri inn á þessa braut, þá væri ekki hægt að neita öðrum kaupstöðum, er síðar kæmu til, um slíka ábyrgð.

Nú er það fagmanna að skera úr því, hvort heppilegra er fyrir landið að ábyrgjast virkjun Sogsins í svo stórum stíl, að nægi fyrir Reykjavík, Suðurland allt, hluta af Vesturlandi og Vestmannaeyjar, eða virkjanir fyrir einstaka kaupstaði. En eftir að hafa talað við ýmsa menn, sem vit hafa á þessum málum, er ég fyrir mitt leyti ekki í vafa um, hvor leiðin er heppilegri En þetta, sem áður var talin höfuðhættan af flokki hæstv. stj., liggur nú fyrir, nefnilega það, að fleiri kæmu á eftir. En svo kynlega bregður nú við, að hæstv. forsrh. minnist ekkert á, að það geti verið hættulegt. Það er því ekkert annað en fyrirsláttur, þegar það hefir verið notað sem forsenda fyrir því, að ekki væri hægt að ábyrgjast slíkt lán fyrir Reykjavík.

Hitt, sem hæstv. ráðh. talaði um, að hér stæði alveg sérstaklega á, þar sem þessum bæ væri betur stjórnað en öðrum bæjum, get ég ekki tekið í alvöru. Það eru ekki annað en þessi venjulegu „kompliment“ hæstv. forsrh. við jafnaðarmenn og þau kjördæmi, sem þá kjósa. Þetta heitir á slæmu máli að „lefla“, og ég skildi þetta ekki öðruvísi en svo, að hér væri verið að „lefla“ fyrir jafnaðarmönnum og kaupstöðum, sem þá kjósa, á kostnað annara kaupstaða. En hæstv. forsrh. vantar öll skilyrði til þess að gera réttilega upp á milli þessara aðilja. Hefi ég þá svarað flestu viðvíkjandi þeim till., sem ég hefi haft afskipti af.

Ég vil að lokum minna hv. frsm. á það, að hvaða ástæðu, sem hann kann að finna til þess að bregða fæti fyrir sumarskýli símamanna, þá er allt frambærilegra en sú hlægilega mótbára, að þetta „beri ekki rétt að“, að hér bæri að snúa sér til stj. Ég fæ ekki betur séð en að þingið sé óaðfinnanlega réttmætur aðili í því máli.