21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1130 í B-deild Alþingistíðinda. (1541)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Magnús Jónsson:

Þegar hv. 3. þm. Reykv. var að tala um að rifja upp framkomu okkar sjálfstæðismanna á þessu þingi, því þótti mér sem maður í glerhúsi tækj að kasta grjóti, því að ef rifjuð væri upp framkoma jafnaðarmannanna nú, þá mundi það þykja sannkallaður skemmtilestur. Nú er hvorki stund né staður til slíks, en vel getur svo farið, að þetta verði gert síðar, þannig að þjóðinni gefist kostur á að kynna sér framkomu þessara hv. þm.

Mér dettur í hug sagan í Sturlungu, sem mig minnir að sé eitthvað á þessa leið: Sighvatur kom í Reykholt til Snorra, og þá sagði Sighvatur, sem var gamansamur mjög, svo frá, að Snorri hefði gengið um gólf, með öxi, mjög hvassa, reidda um öxl, „en þá tók ég hein upp úr pússi mínum og reið á eggina og hún hló við mér“.

Líkt er því farið með hv. jafnaðarmenn. Í fyrstu létust þeir vera harðvítugir stjórnarandstæðingar og ásökuðu þá okkur fyrir ónóga stjórnarandstöðu. En stjórnin sýnist nú hafa heldur en ekki sorfið sárustu eggina af þeim, því að nú hlægja þeir við Framsókn. Og svo endaði þessi skrípaleikur með píslargöngu hv. 2. landsk. í Ed.

Ég minnist ekki að hafa séð nokkurn þingmann í aumlegri aðstöðu en hann. Hann hélt ræðu og tvísté mikið, en neitaði svo að greiða atkv. um þetta mikilvæga mál, og forseti úrskurðaði, að hann væri ekki atkvæðisbær. Svona gekk það við hverja grein, þangað til hv. 1. þm., Reykv. stakk upp á því, að þetta væri borið undir deildina, hvort hann væri atkvæðisbær eða ekki, því að þá væri andlegum veikleika um að kenna, en engu öðru. Þetta varð hv. þm. að þola, enda kvað hann fá góða bita að launum.