23.07.1931
Neðri deild: 10. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (1548)

62. mál, útsvör

Magnús Guðmundsson:

Þótt ég sé ekki riðinn við þetta frv., vildi ég samt nota tækifærið til þess að beina því til hv. allshn., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, að þetta frv. á aðeins við í Reykjavík, en víðar mun koma sér vel en þar að hafa gjalddaga fleiri.

Ég vil einnig beina því til hv. nefndar, að hún athugi gang þessa máls hér á þinginu í fyrra. Það var þá flutt af hv. 2. þm. Rang. og er að finna á þskj. 214 í þeim hluta Alþt., sem skjöl þingsins eru birt í.

Mér finnst það eðlilegast, að sveitar- og bæjarstjórnir hafi leyfi til að ákveða þann eða þá gjalddaga útsvara, sem hentar bezt á hverjum stað, og að dráttarvextir verði þeir sömu um land allt. Annars vona ég, að mál þetta fái sömu afgreiðslu og í fyrra og gangi í gegnum þingið mótstöðulaust.