06.08.1931
Neðri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (155)

1. mál, fjárlög 1932

Haraldur Guðmundsson:

Ég var ekki í d. þegar hv. frsm. talaði síðast og svaraði andmælum frá mér o. fl. gegn till. fjvn. Ég hefi þó frétt á skotspónum það, sem hann hafði vikið að mér. Ég skal geta þess, að einn af sögumönnum mínum að minnsta kosti er sæmilega góð heimild, því að það var hv. frsm. sjálfur.

Hann vítti mig fyrir ábyrgðarleysi í afgreiðslu fjárl. Þegar við Alþýðuflokksmenn kæmum með brtt., þá stæði okkur á sama, hvort tekjuhalli yrði á fjárl., sagði hann. Og hann er hneykslaður á þessu, mikið hneykslaður! Sjálfur er hv. frsm. stuðningsmaður þeirrar stj., sem skilar 1 millj. kr. tekjuhalla á sama árinu sem hún fékk 5 millj. kr. umfram tekjuáætlun fjárl., stj., sem lýsti yfir því í vetur, að raunverulegur tekjuhalli væri enginn, en meðgengur nú skyndilega, að tekjuhallinn sé a. m. k. 1 millj. kr. Og þessum manni finnst hann geta prédikað um ábyrgðartilfinningu, að ekki megi verða tekjuhalli á fjárl.! Þetta er svo mikil óskammfeilni, að það gengur ósvífni næst. Það er eins og ef hórkarl tæki að vanda um skírlífi, eða þjófur um ráðvendni!

Þá var hv. frsm. sárhneykslaður á því, að ég hafði lýst yfir því í fyrri ræðu minni, að ég myndi greiða atkv. gegn frv., þó að mínar brtt. næðu samþykki. Hann taldi, að þetta væri ósvífni. En þá verð ég að minna hv. frsm á það, að hann hefir sjálfur gerzt sekur um samskonar ósvífni, oft og mörgum sinnum. Hann hefir hvað eftir annað flutt brtt., þótt hann hafi verið andvígur frv., sem brtt. voru við. Og sama mun um flestalla hv. þdm. Ég sé heldur ekki annað en að það muni takast nokkurn veginn fyrir sameinuðum Íhalds- og Framsóknarflokknum að afgr. fjárl. út úr deildinni.

Það eru þá aðeins örfá atriði, sem ég þarf að drepa sérstaklega á. Verða þá fyrst fyrir mér ábyrgðir ríkissjóðs.

Hv. frsm. gat þess alveg réttilega í sambandi við LXV. brtt. á þskj. 183, að það væri óheppilegt, að boðnar væru út ábyrgðir ríkissjóðs í útlöndum. Það gæti orðið til þess að spilla áliti landsins. Þess vegna, væri hann á móti ábyrgð til handa Ísafjarðarkaupstað. Hinsvegar að því er snerti ábyrgð til handa samvinnufélagi Seyðfirðinga, þá virtist hv. frsm. helzt vera andvígur henni, af því að ekki þyrfti að leita með hana til útlanda. Þetta þykir mér einkennileg rökfærsla og ekki sérlega sannfærandi.

Um síldareinkasöluna sagði hv. frsm., að henni væri ekki þörf á frekara rekstrarláni. En mörg skeyti eru til um það, að síldareinkasalan er ekki farin að borga saltendum neitt af því, sem þeir hafa lagt út, blátt áfram af því, að féð er ekki til. Hv. þm. hlýtur að vita, að sú hálfa millj. kr., sem veitt er í fjárl. í þessu skyni, nægir ekki. Hinsvegar virtist hv. frsm. vera mér sammála um það, að þessari ábyrgð fylgdi engin áhætta. Það er óhugsandi, að ríkissjóður tapi neinu, þó að hann gengi í þessa ábyrgð, því að hér eru ákvæði, sem tryggja það. Finn ég svo ekki ástæðu til að víkja fleiru að ræðu hv. frsm.

Hæstv. forsrh. fann ástæðu til þess að mæla nokkur áminningarorð til þessarar hv. þd. í sambandi við brtt. á þskj. 207, sem er hið mesta endemi. Það er heimild handa ríkisstj. til þess að klípa 25% af því fé, sem veitt er til nýrra, opinberra framkvæmda. Ég vil í þessu sambandi beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh., sem hann er nú orðinn allvanur að heyra: Hvenær kemur stj., sem á að framkvæma þessi lög? Þetta skiptir þingið miklu máli. Ég vil segja hæstv. forsrh. það, að ég hefi heyrt, að stj. sé fullmynduð. En það kvað þykja hentugt að sýna ekki þinginu framan í hana fyrr en undir þinglok, m. a. til þess að komast hjá eldhúsumr. En það gengur næst ósvífni við þingið að ætla því að afgr. fjárlög, án þess að það viti, hver á að framkvæma þau næsta ár. Forsrh. tók það fram alveg réttilega, að kreppan, sem nú er farin að færast yfir, er hin alvarlegasta, sem gengið hefir yfir landið á þessari öld. Ég er honum sammála um það. En ég veit ekki, hvort hæstv. forsrh. kannast við það, að einu sinni tóku fjöllin jóðsótt og það fæddist ein lítil mús. Þetta er nú í annað sinn, sem hæstv. forsrh. talar um þetta. Í fyrra skiptið lagði hann ekkert til málanna. En nú í síðara skiptið leggur hann fram sína till. En hvernig er hún? Hún er prentuð á þskj. 207 og er þess efnis, að draga megi 25% af öllum greiðslum fjárlaganna, sem ekki eru lögum eða samningum bundnar. En hverjar eru þær? Það eru nýjar verklegar framkvæmdir. Sú upphæð, sem til þeirra skal varið, er nú um 660 þús. kr., en verður. h. u. b. 800 þús. kr., ef brtt. n. ná fram að ganga. Nú ætlar hæstv. forsrh. að bjarga fjárhag ríkisins með því að draga 25% af þessari upphæð. Mig furðar stórlega á því, að maður í stöðu hæstv. forsrh. skuli geta verið svo gálaus eða glapskyggn, að koma hróðugur inn í deildina yfir slíku ráði. Hver maður sér, að þetta er ekkert annað en skrípaleikur — grátlegur skrípaleikur.

Fjárkreppan skellur ekki á ríkissjóði einum, heldur landsmönnum öllum. Og það er miklu meira um það vert að bjarga landsmönnum öllum, heldur en þó að ríkissjóður verði fyrir nokkru tapi. Sumir flokksmenn hæstv. forsrh. virðast hafa einhvern pata, af þessu. Þeir vilja leggja fram rúmar 300 þús. kr. til atvinnubóta. Útkoman verður því sú, að tveir flokksmenn ráðh. vilja bæta úr atvinnukreppunni með því að leggja þessa upphæð fram í því skyni. Samtímis finnur forsrh. það út af sinni miklu vizku, hvernig hægt sé að bjarga fjárþröng ríkissjóða, — með því að draga því sem næst sömu upphæð frá fé því, sem veitt er til opinberra framkvæmda! Aðra eins endemis vitleysu hefir enginn maður borið fram á þessu þingi. Þetta gæti slegið út hvern trúðleikara. Og þetta á alvarlegustu tímum, sem komið hafa á þessari öld. Það er satt bezt að segja ekki vanþörf orðin á því að sjá nýju stjórnina, t. d. það, hvort hún hefir í hyggju að leika sama leikinn.

Get ég svo látið útrætt um þetta mál um sinn. Við Alþýðuflokksþm. munum greiða atkv. móti frv. Og ef það sætir svipaðri meðferð í Ed., þá verður einnig hið sama gert þar.

Ég ætla þá að lokum að víkja að einu atriði. Það er frv. um búfjárrækt. Eftir því, sem gert er ráð fyrir, nemur kostnaður við það hátt á annað hundrað þús. kr. Er það vegna þessa frv., sem hæstv. forsrh. vill fá heimild til þess að halda eftir 25% af fé því, sem veitt er til opinberra framkvæmda?

Í gær tókst innilegasta samkomulag í Ed. milli Íhalds- og Framsóknar um framlengingu verðtollsins. Hann var 2 millj. 200 þús. kr. 1930. Þar með hafa báðir þessir flokkar komið sér saman um að framlengja þeim tolli, sem þyngst mæðir á öllum almenningi. Væntanlega er það þeirra ráð til þess að mæta kreppunni.