27.07.1931
Neðri deild: 13. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1134 í B-deild Alþingistíðinda. (1550)

62. mál, útsvör

Frsm. (Einar Arnórsson):

Eins og kunnugt er, voru á þinginu í vetur borin fram tvö frv. um breyt. á gjalddögum útsvara, annað af þm. Reykv., hitt af þm. Rang. Hv. allshn. afgreiddi málið á þann hátt, að steypa þessum 2 frv. saman með því að fella efni frv. þm. Reykv. inn í frv. þm. Rang. Fyrirmæli þess hnigu í þá átt, að bæjarstjórnum og sveitarstjórnum skyldi heimilt að ákveða aðra gjalddaga á útsvörum en fyrirskipaðir eru í lögum um útsvör.

Það varð nú að samkomulagi í allshn. að taka upp ákvæði frv. þm. Rang. frá í vetur og bera fram brtt. við frv. það, sem við þm. Reykv. flytjum nú, og breyta því í sömu átt og hv. allshn. lagði til í vetur. En með þeim brtt., sem n. leggur til, er frv. okkar raunverulega úr sögunni, ef þær verða samþ. Ég geri ráð fyrir, að hv. deild fallist á þessa meðferð málsins, og sé ekki ástæðu til að fara frekari orðum um það.