06.08.1931
Neðri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

1. mál, fjárlög 1932

Jón Auðunn Jónsson:

Út af ummælum hv. frsm. fjvn. viðvíkjandi till. minni á þskj. 183 um útgjöld í sambandi við læknastyrk, vil ég taka það fram, að sá styrkur er ekki eingöngu notaður handa hreppum, sem eru læknislausir, heldur og sem uppbót handa hreppum, sem erfiða eiga læknissókn. Og þegar litið er yfir skýrslur um styrkinn, er það sýnt, að allir nema tveir hafa verið veittir í þessu skyni.

Þá sagði hv. frsm., að fjvn. hefði ekki verið sammála um fjárstyrk til öldubrjótsins í Bolungarvík. En ef það verk verður ekki unnið í ár, þá er mikil hætta á, að það verði að einhverju ónýtt, sem þegar er unnið. Með því að fresta fjárv. til næsta árs, er það tryggt, að verkið verði unnið að vori þegar sjógangur er lítill, og geti þannig komið að fullum notum. Skil ég ekki, að hv. fjvn. leggist á móti þessu.

Hæstv. fjmrh. minntist á till. mína um styrk til fóðurbætiskaupa handa búfjáreigendum í Norður-Ísafjarðarsýslu. Minntist hann á það, að lána mætti fé úr Bjargráðasjóði vaxtalaust. Samt þætti mér gott að vita, hve mikið fé er handbært í þeim sjóði. Fjmrh. minntist líka á heimild til ábyrgðar fyrir Ísafjarðarkaupstað til rafvirkjunar, og virtist vera henni samþykkur, en þó var eins og hann væri á móti samskonar ábyrgð fyrir Hólshrepp.

Þá vil ég minnast lítilsháttar á flóabátinn. Samgöngur vestra hljóta að leggjast niður að miklu leyti, ef ekki fæst þessi styrkur, sem ég fer hér fram á, til kaupa á bát til mann- og póstflutninga um Ísafjarðardjúp. Kemur þá til þess, að ríkissjóður verður hvort sem er að borga að minnsta kosti 12 þús. kr. til póstflutninga norður á firðina. Væri það hefnd á héraðsbúa, ef þeir fengju ekki svo sem 10 þús. kr. á ári til samgöngubóta, þar sem þeir fá ekkert úr ríkissjóði til vegagerða. Sama máli gegnir um þá till. mína, að ríkið ábyrgist 60 þús. kr. lán fyrir h/f Djúpbátinn til bátakaupa gegn ábyrgð N.- Ísafjarðarsýslu og 1. veðrétti í skipinu. Er þessi 60 þús. kr. ábyrgð ekki tilfinnanleg fyrir ríkissjóð.

Þá vil ég leyfa mér að leggja þá spurningu fyrir hæstv. fors.- og fjmrh., hvort það sé rétt, að landsetar á kirkjujörðum hafi ekki fengið greiddan jarðabótastyrk um tveggja ára skeið?