20.07.1931
Neðri deild: 5. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í B-deild Alþingistíðinda. (1580)

27. mál, einkasala á síld

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Það er í raun og veru mjög ánægjulegt að heyra hv. þm. Ísaf. lýsa yfir því, ekki aðeins fyrir sína hönd, heldur og samherja sinna, að þeir óski eftir, að teknar séu til athugunar breyt. á stjórn einkasölunnar, því að það er óbein viðurkenning þess, sem við flm. höfum haldið fram hér á þingi, að þörf sé á að breyta stjórn og skipulagi þessa fyrirtækis. Vegna þess að ég hefi ekki orðið áður var við slíkan vilja hjá hans flokki, þá er mikilsvert fyrir okkur, sem að umbótunum stöndum, að vinna það á, að fá þessa hv. þm. í lið með okkur, til þess að vinna að umbótum á stjórn einkasölunnar.

Hv. þm. fellur ekki algerlega sú skipting fulltrúanna, sem frv. gerir ráð fyrir. Það getur vel verið, að hún sé ekki að allra skapi, en ég vil minna á það, sem einnig kom fram í ræðu hv. þm. Ak., að hér er ekki leitazt við að beita neinni ósanngirni gagnvart sjómönnum eða skipstjórum, því að hér er farið fram á, að áhrif þeirra á atvinnuveginn séu í réttu hlutfalli við þá áhættu, sem þeir hafa í sjálfri atvinnunni — í síldinni. Og ég verð að segja, að ég fæ ekki séð, að hægt sé að finna öllu réttlátari mælikvarða.

Að því er snertir hluttöku verkamanna í landi, vil ég benda á aðstöðumun þeirra og sjómanna. Útgerðarmenn, sjómenn og skipstjórar eiga alla sína peningalegu afkomu undir því, hvernig sala síldarinnar tekst. Gangi hún vel og fái síldareinkasalan skjóta greiðslu, fá þeir einnig fljótt og vel borgað. Gangi salan illa, eins og hefir átt sér stað undanfarið. verða sjómenn og útgerðarmenn að bíða eftir peningum sínum von úr viti, og ég get bætt því við, að þessir menn bíða enn þann dag í dag eftir fullnaðarskilum frá síðasta ári.

Um verkamenn í landi er allt öðru máli að gegna. Þeir fá kaup sitt að lokinni vinnu. Þeirra hagsmunir standa ekki í beinu sambandi við hagsmuni sjómannanna. Þessi aðstöðumunur gerir það að verkum, að fólkið í landi hefir ekki meira tilkall til þess að hafa fulltrúa í stjórn einkasölunnar heldur en þeir, sem vinna á hafnarbakkanum í Reykjavík hafa til þess að eiga menn í stjórn togarafélaganna. Hið eina rétta er, að þeir hafi atkvæði um stjórnina, sem bera áhættu og ábyrgð af fyrirtækinu, en ekki aðrir.

Hv. þm. sagði, að það væru fáir menn í sjómannafélögunum fyrir norðan, en bætti því við, að sjómenn væru í verklýðsfélögunum og ættu samleið með þeim. Mér þykir undarlegt, ef sjómenn eru almennt í verklýðsfélögunum, að þeir hefðu þegjandi sætt sig við, að munur væri gerður á þeirra vinnu og fólksins í landi. Það mega vera þolinmóðir sjómenn, sem eiga sæti í verklýðsfélögunum nyrðra, þegar þeir hafa borið skarðan hlut ár eftir ár, en verkafólk í landi fengið miklu meira kaup en fyrir nokkra aðra vinnu og allt á kostnað sjómanna. Mér þykir því ekki trúlegt, að þeir ráði miklu í þessum félögum. Ég býst við, að þeir séu þar ofurliði bornir, því að arði þeirra af veiðinni er meir haldið til annara en þeirra sjálfra.

Þessar aths. vildi ég láta koma fram sem sjálfsögð rök gegn þeirri kröfu, að verkalýðsfél. ráði yfir síldareinkasölunni. Fullkomið einræði síldarútvegsmanna yfir útveginum, ef þetta frv. er samþ., sé ég ekki, að þurfi að vera, því að sjómenn og skipstjórar eiga líka að hafa þar áhrif. Það mætti með sama rétti halda því fram, að Alþingi eitt ráði nú fyrir einkasölunni. Því hefir enginn haldið fram, þótt við hinsvegar teljum, að íhlutun þess sé of mikil.