20.08.1931
Neðri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1150 í B-deild Alþingistíðinda. (1586)

27. mál, einkasala á síld

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta mál, því að ég geri ráð fyrir, að öllum hv. þdm. sé kunnugt um, hvað fyrir 1iggur.

Eins og getur á þskj. 352, hefir sjútvn. athugað þetta mál og rætt það frá ýmsum hliðum. N. hefir orðið sammála um að leggja til, að frv. á þskj. 27 verði samþ. með nokkrum breyt., og í því efni hefir hún fallizt á að leggja til grundvallar brtt. á þskj. 96 frá jafnaðarmönnum, og ber því fram nokkrar brtt. við þær á þskj. 352.

Aðalbreyt. er í því fólgin, að koma skuli á aðalfundi, sem fjalli um mál einkasölunnar frá öllum hliðum. Þar skulu einnig kosnir 4 menn í útflutningsnefnd, en atvmrh. skipar einn mann.

Það, sem aðallega greinir á í till. n. og jafnaðarmanna er það, hvernig aðalfundur skuli skipaður Þeir leggja til, að hann skuli skipaður af síldarútvegsmönnum. N. er sammála þeim um, að það sé hentugt. Hinsvegar leggja þeir til, að Alþýðusamband Íslands kjósi 7 menn á aðalfund. N. getur þar ekki verið þeim sammála, en leggur til, að þeir séu kosnir af sjómannafél. um landið. N. er að vísu ekki kunnugt um, hve mörg sjómannafél. eru á landinu, en þau munu þó vera nokkuð mörg. Annars fer kosning fram eftir þeim reglum, sem atvmrh. setur, þannig, að sjómannafél. kjósi sinn fulltrúa fyrir hvern landshluta.

N. er sammála um, að eðlilegast sé, að þeir aðilar, útgerðarmenn og sjómenn, sem hafa mestra hagsmuna að gæta við rekstur einkasölunnar, ráði þar mestu. Það er reyndar ekki hægt að bera á móti því, að aðrir verkamenn svo og allur landslýður hafi hér nokkurra hagsmuna að gæta. Alþýðusamband Íslands semur við einkasöluna um vinnukaupið, og verkamenn yfirleitt hafa þeirra hagsmuna að gæta, að þeir samningar séu efndir. En þeir, sem mestra hagsmuna hafa að gæta, eru þó útgerðarmenn og sjómenn. N. finnst þess vegna eðlilegt, að þeir ráði mestu um það, hvernig síldareinkasalan er rekin.

Ég sé, að hér er brtt. frá hv. þm. Ísaf., á þskj. 387. Er þar farið fram á, að Alþýðusamband Íslands eða Alþýðusambandsstj. skipi þessa 7 menn. Er þar tekið fram, að meiri hl. þeirra skuli kosinn úr hópi sjómanna. Ég fyrir mitt leyti — ekki fyrir hönd n. — geri það ekki að kappsmáli, hvor leiðin verður farin.

Annars ætla ég ekki að ræða um þetta fyrr en hv. þm. hefir gert grein fyrir till. sinni.