20.08.1931
Neðri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (1590)

27. mál, einkasala á síld

Héðinn Valdimarsson:

Það voru aðeins þrjú atr. í ræðu hv. þm. Vestm., sem gefa mér tilefni til að segja nokkur orð. Hann talaði um það, að ég væri á móti því, að framkvæmdastjórar síldareinkasölunnar væru kosnir hlutfallskosningu. Ég verð að segja fyrir mitt leyti, hvernig sem aðrir líta á þetta mál, að mér finnst engin ástæða, meðan starfsmenn ríkisins eru ekki kosnir hlutfallskosningum, að kjósa starfsmenn síldareinkasölunnar með þeim hætti. Ég veit ekki til, að hv. þm. Vestm. hafi óskað þess almennt, heldur eingöngu af sérstökum ástæðum óskað hlutfallskosninga við síldareinkasöluna. Þá talaði hann nokkur orð um Einar Olgeirsson, sem var framkvæmdastjóri við síldareinkasöluna. Eins og kunnugt er, hefir hann engan flokksmann sinn á þingi, sem getur tekið málsstað hans, og hann er nú ekki lengur framkvæmdastjóri, svo að það virðist ástæðulaust af hv. þm. Vestm. að vera að seilast til hans. En það, sem hv. þm. talaði um hann í þessu sambandi, var aðallega út af verkfallinu í Krossanesi og á Siglufirði. Bæði þessi verkföll voru á þann veg, að það var verkafólkið sjálft, sem réði, hvaða kröfur það gerði. Og í öðru tilfellinu, á Siglufirði, kom til hans kasta sem framkvæmdastjóra, hvort hann vildi verða við kröfunum eða ekki. Hann varð við þeim. Það er ekki rétt að áfellast framkvæmdastjórann í þessu ákveðna tilfelli, fyrir það, að hann gengi að kröfum verkafólksins. Þátttaka hans í Krossanesverkfallinu var eingöngu á þann hátt, að hann var í stj. Verklýðssambands Norðurlands. Og þó að hann hafi verið í stj. síldareinkasölunnar, þá sé ég ekki, að hægt sé að banna honum að taka þátt í verkföllum eins og þar komu fram gagnvart honum óviðkomandi aðilja. Hinsvegar get ég nokkuð skilið, að hv. þm. Vestm. áfellist Einar fyrir þessi mál, þar sem hann lítur svo á, að það eigi að vera aðalverkefni framkvæmdastjóra síldareinkasölunnar að fá niður kaup fólksins. Ég hygg, að þó að hv. þm. þykist tala fyrir hönd útgerðarmanna og sjómanna, þá tali hann ekki fyrir hönd sjómanna. Það er áreiðanlegt, að þeir álíta ekki aðalverkefni framkvæmdastjóranna að fá niður kaupið, heldur þvert á móti, að kaup verkafólksins geti orðið sem allra hæst. Þá kom hv. þm. með nokkrar sögur um Finnland, sem algerlega eru teknar úr lausu lofti, um það, að síldareinkasalan hafi gert samning við Svía um að hafa einkaumboð á Finnlandi. Ég veit ekki, hvort hv. þm. trúir þessu sjálfur, en þetta er fjarri öllum sanni. Það hafa aldrei verið gerðir neinir samningar við Svía um slíkt. Fyrsta árið, sem síldareinkasalan var. voru seldar 6 þús. tn. Í fyrravetur fór Helgi Pétursson frá Kaupmannahöfn til að selja síld til Finnlands, en varð ekki ágengt. Ástæðan er sú, að eftir fyrsta ár einkasölunnar fékk Elvin konsúll mikinn áhuga fyrir síldarmálum og hugsaði, að Finnar sjálfir gætu veitt eins og Íslendingar og kom því til leiðar, að hár tollur var settur á erlenda síld vegna finnskrar síldar, 50 kr. á tunnu. Upp frá þessu tókst þessi mikla útgerð frá Finnlandi af hálfu Elvins konsúls. En hinu, sem hv. þm. hélt fram, að einkasalan hafi gert samning við Svía til þess að útiloka kaup til Finnlands, er fjarri öllum sanni. Annars geri ég ráð fyrir. að hv. þm. Ísaf. svari öðrum atriðum úr ræðu hv. þm. Það er eitt atriði, sem ég vildi sérstaklega árétta frekar í ræðu hv. þm. Ísaf. um þau ákvæði, sem komu frá n., að sjómannafél. skuli kjósa fulltrúa til síldareinkasölunnar í stað þess, að brtt. hans er um það, að þeir skuli kosnir af Alþýðusambandi Ísl. Nú er það svo, að engin sjómannafél. eru fyrir utan Alþýðusamband Íslands, svo að ekki er hægt að komast fram hjá mönnum, sem eru í Alþýðusambandinu, og ef þessu er framfylgt, þá yrði það eingöngu til þess, að sjómannafél. í Rvík, sem hefir á 11. hundrað meðlimi, réði öllu um kosninguna. En ef Alþýðusambandið kýs fulltrúana, þá mega Rvíkurfélögin sín minna en fél. úti um land. Í öðru lagi má geta þess, að eins og hv. þm. Ísaf. tók fram, eru aðeins á 3–4 stöðum á landinu sjómannafél., en sjómenn eru alstaðar til við sjóinn á Íslandi. Þeir eru þá í verkamannafélögum eða verklýðsfélögum. Auk þess má geta þess, að verkamenn skrifa sig verkamenn og eru það eitt árið, en sjómenn annað árið, svo að það er ekki auðvelt að gera mikinn greinarmun á þessu, eins og n. hefir gert. Þess vegna vil ég mælast til þess, að deildin fallist á, að það verði Alþýðusamband Íslands sem eini rétti fulltrúi verkalýðsins í landinu, sem hefir innan sinna banda 7 þús. verkafólks. og áreiðanlega er eini fulltrúinn, er getur talað af myndugleik fyrir hönd sjómannastéttarinnar og verkafólksins í landinu, sem kýs fulltrúa fyrir sjómennina til síldareinkasölunnar.