20.08.1931
Neðri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1162 í B-deild Alþingistíðinda. (1591)

27. mál, einkasala á síld

Jón Auðunn Jónsson [óyfirl.]:

Hv. þm. Ísaf. hefir gert þá brtt., að Alþýðusambandsstj. skuli kjósa fulltrúa fyrir hönd sjómannafélaganna. Það má vel vera, að það sé erfiðleikum bundið fyrir sjómannafél. að kjósa þessa menn, og að þess vegna sé það skynsamlegra að fela Alþýðusambandinu að kjósa þá. En einu vil ég, að slegið sé föstu, að til þessa starfs séu aðeins valdir sjómenn. Ég hefi heyrt það, ekki sízt á fundum í vetur á Ísafirði, að sjómenn líta svo á, að þeir hafi ekki sameiginlega hagsmuni við verkamenn. og það er áreiðanlegt, að þeir vilja skipa sjómenn í þetta fulltrúaráð. Þeir bentu á það mörgum sinnum, og það með rökum, að um leið og þeir bera úr býtum 6–700 kr. 2 mánuði ársins og verða að fæða sig þar af, þá fá menn, sem vinna í landi, frá 11–1400 kr., og margar stúlkur frá 800–1000 kr. Þeim finnst hér kenna nokkurs misréttis, þar sem vitanlegt er, að þeir leggja fram meiri vinnu en verkafólkið í landi, og starf þeirra er að öllu leyti áhættusamara. Ég ætlaði því að koma með brtt., en hv. frsm. hefir sýnt mér hér aðra brtt., sem hann ætlar að bera fram fyrir hönd n., um að skipa þessu máli á þann veg, að aðeins verði kosnir sjómenn í þetta fulltrúaráð. Ég get því fallið frá minni till., en vil mælast fastlega til þess, að þessi till. verði samþ.