27.07.1931
Efri deild: 13. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í D-deild Alþingistíðinda. (1603)

41. mál, veðdeild Landsbankans

Flm. (Jakob Möller) [óyfirl.]:

Þetta mál er öllum hv. dm. svo kunnugt, að óþarfi er að halda um það langa framsöguræðu. Till. þessi fer fram á það, að hæstv. stj. leggi fyrir þetta þing frv. til l. um veðdeild Landsbankans, sem tryggi það, að lánsstofnun þessi geti fullnægt ætlunarverki sínu, en það er í því fólgið, að veita mönnum fyrsta veðréttar lán út á fasteignir sínar.

Veðdeild Landsbankans var eina þesskonar stofnunin hér á landi allt fram á síðustu ár, að veðdeild Búnaðarbankans var sett á fót. En það, sem hér er sagt um veðdeild Landsbankans, á líka við um veðdeild Búnaðarbankans, því þar hafa sömu erfiðleikarnir gert vart við sig. Erfiðleikarnir eru þeir, sem kunnugt er, að markaður fyrir vaxtabréf veðdeildarinnar er hvergi nærri nógur innanlands til þess að fullnægja þörfinni. Verður því að mestu leyti að leita til útlends fjármagns, þar sem bréfin seljast illa hér, bæði vegna fjárskorts og annara erfiðleika.

Nú hefir sú aðferð verið höfð allt frá því snemma í tíð veðdeildarinnar, að henni hefir verið séð fyrir fjármagni á þann hátt, að ríkissjóður hefir tekið lán erlendis til þess að kaupa þessi bréf. 3. fl. veðdeildarinnar var algerlega komið fyrir á þennan hátt. Síðan þeim flokki lauk, kom tímabil, sem algerlega var vanrækt að greiða úr þörfinni. 4. flokkur var gangandi í 12 ár, en var hvergi nærri fullnægjandi. Á árinu 1926 var svo tekið lán handa veðdeildinni og var með því greitt mjög vel úr þessum þörfum manna í bili. Þó var hungrið eftir þessum lánum svo mikið, að ekki er hægt að segja, hvað árleg þörf manna fyrir þau muni vera mikil. Síðan 1927 hefir ekkert verið gert til þess að fullnægja þessari þörf. þinginu 1928 var að vísu samþ. að heimila ríkisstj. að taka lán til þess að kaupa veðdeildarbréf, en stj. hefir ekki framkvæmt vilja þingsins. Síðan hefir sala bréfanna verið mjög takmörkuð. Aðallega er það Landsbankinn, sem hefir keypt þau, og hefir hann að vísu stundum keypt mjög mikið, þó að það hafi ekki getað fullnægt þörfinni. En Landsbankinn hefir komizt að þeirri niðurstöðu, að hann geti ekki haldið áfram að kaupa bréf í svo stórum stíl og að hann hafi gengið lengra í því heldur en honum var fært að gera. Nú er því þannig ástatt, að bréfin hafa ekki annan markað en innlendan, og ef svo heldur áfram, hljóta bréfin að fara sífallandi. Við svo búið má ekki lengur standa. Það verður að greiða fyrir því, að vaxtabréf veðdeildarinnar verði útgengileg á erlendum markaði, eða að taka lán í þessu skyni að öðrum kosti.

Okkur flm. þessarar till. er kunnugt um það, að frv., sem gengur í þessa átt. hefir verið samið í samráði við hæstv. stj., og er langt síðan það var afgr. frá stj. Landsbankans til hæstv. stj., en síðan hefir ekki til þess spurzt. Tilgangurinn með þessari þáltill. er sá, að ýta á eftir því, að frv. þetta komi fram og koma málinu þannig í höfn.

Ég efast ekki um, að öllum hv. dm. sé svo ljós hin mikla þörf, sem hér er um að ræða, að óþarfi sé að fjölyrða meira um málið að sinni, heldur mun ég taka til máls síðar, ef þörf gerist.