27.07.1931
Efri deild: 13. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í D-deild Alþingistíðinda. (1606)

41. mál, veðdeild Landsbankans

Jón Baldvinsson:

Ég geri ráð fyrir, að hv. 2. þm. Eyf. hafi talað hér fyrir munn stj., og það sé því rétt, að stj. hafi undirbúið frv. um þetta efni og ætli að leggja það fyrir n. eða láti einhvern bera það fram á þingi. En mér finnst nú vera orðið nokkuð áliðið þings og að stj. hafi legið nokkuð lengi á þessu máli. Því það er áríðandi, að lög um þetta efni séu afgr. Það er ekki nóg, að frv. komi fram, þótt það verði um næstu helgi, því að líklegt er, að þing standi ekki lengi yfir úr þessu, þar sem fjárl. eru nú komin til 2. umr. í Nd., og ef að vanda lætur, verða málin látin niður falla þegar fjárl. hafa verið afgr.

Það var ekki ofmælt, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði um þörfina fyrir því, að veðdeild Landsbankans taki sem fyrst til starfa. Það yrði til þess að bæta að nokkru úr atvinnuleysinu og viðskiptum, því það eru margar millj. kr., sem liggja nú í reikningum við verzlanir og í skuldum við einstaka menn fyrir byggingar, sem gerðar hafa verið nú upp á síðkastið. Og þótt menn hafi haft nægileg efni til þess að koma sér upp húsi, ef þeir aðeins gætu fengið 1. veðréttar lán, þá hafa þeir komizt í vandræði af því, að þeir hafa ekkert veðdeildarlán fengið eða ekki getað selt veðdeildarbréfin.

Það væri því æskilegt, að mál þetta gæti nú þegar komið fram, ef það er tilbúið, eins og hv. 2. þm. Eyf. og hv. 1. þm. Reykv. hafa talað um, og ætti þá ekkert að vera því að vanbúnaði. Það eru svo mörg lög, sem liggja fyrir um þetta efni, og má þá prenta nýtt frv. upp úr þeim. En það má ekki dragast lengi úr þessu, þar sem liðið er svo langt á þingtímann. Það hefði verið heppilegt, ef stj. hefði sagt það hér í d., að hún vildi beita sér fyrir því, að þetta frv. komi hér fram, því það skapar ró hjá þeim mönnum, sem bíða eftir afgreiðslu veðdeildarlána, og þeim, sem ætla að ráðast í byggingu. ef þeir hefðu von um, að fljótt yrði greitt úr þessu máli.

Ég vil því — nema greinileg yfirlýsing stj. um, að málið skuli koma hér fram, komi til —, að d. samþ. þessa till. nm áskorun til stj. um að leggja frv. um veðdeild Landsbankans nú þegar fyrir Alþingi.