27.07.1931
Efri deild: 13. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í D-deild Alþingistíðinda. (1607)

41. mál, veðdeild Landsbankans

Einar Árnason:

Ég legg lítið upp úr því, hvort þessi till. verður samþ. eða ekki. Ég býst við, að frv. um þetta efni verði lagt fyrir þingið frá stj., og það kemur jafnseint eða snemma, hvort sem þessi till. er samþ. eða ekki.

Hv. 1. þm. Reykv. og hv. 2. landsk. töluðu um, að nú væri orðið svo áliðið þings, að óvíst væri, hvort málið gangi í gegn á þessu þingi. ef það komi ekki fljótt fram.

Það mun óhætt að segja, að lítill eða enginn ágreiningur er um frv., og því hægðaleikur að koma því gegnum þingið jafnvel á styttri tíma en væntanlega er eftir af þingtímanum. Ég veit ekki betur en mál hafi komið hér fyrir um daginn, sem var afgr. á einum degi í hvorri deild. Ég legg því ekki mikið upp úr því, hvort þessi till. verður samþ. eða ekki, því ég veit, að stj. ætlar að koma þessu máli á framfæri.