27.07.1931
Efri deild: 13. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í D-deild Alþingistíðinda. (1608)

41. mál, veðdeild Landsbankans

Jónas Jónsson:

Ég ætla að segja hér fáein orð vegna þeirra ummæla hv. 1 þm. Reykv., sem lutu að því, að ástæðan fyrir till. þessari væri sú, að knýja eitthvað fram í þessu máli, sem ekki kæmi annars.

Ég býst við, að hv. þm. sé ekki kunnugt um, að það, sem er aðalatriði þessa máls, var undirbúið af ríkisstj. Fyrrv. fjmrh. (EÁrna) setti málið fyrst inn á þá leið að búa til stofnun, sem starfaði út á við bæði fyrir Landsbankann og Búnaðarbankann við sölu veðdeildarbréfanna erlendis, svo von væri um sjálfstæðan markað. Ég vann dálítið að þessu erlendis og samdi Jón Krabbe ýtarlegar till. um málið, sem hann hefir sent hingað í bréfi til mín, undirstöðuna í frv. því, sem Ólafur Lárusson hefir gert fyrir stjórnina. Það er því dálítið kýmilegt, ef nú á að fara að tortryggja flokk, sem fundið hefir þessa nýju leið og tekið þátt í undirbúningi málsins, um, að hann vilji ekki sinna þessu máli.

Hv. 2. landsk. og hv. 1. þm. Reykv. eru víst sammála okkur, sem undirbjuggum þetta mál, um að reyna þessa leið. Það er því óþarfi að tala um annað en afgreiðslu þessa máls, og eins og hv. 2. þm. Eyf. talaði um, er nægur tími enn til þess að það komist í gegnum þingið.