27.07.1931
Efri deild: 13. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í D-deild Alþingistíðinda. (1610)

41. mál, veðdeild Landsbankans

Jón Baldvinsson:

Ég held, að það ætti að herða á stj., ef till. er formlega samþ., frekar en ef henni væri frestað. Það er ef til vill rétt hjá hv. 2. þm. Eyf., að frv. komi fram hvort sem þessi till. verður samþ. eða ekki, en mér finnst, að hvaða stj. sem er ætti að taka tillit til þess, ef ósk kemur fram um að hraða málinu. Það getur verið, að málið sé hægt að afgreiða í skjótri svipan, þegar það kemur fram.

Ég bjóst við, að þetta nýja frv. yrði að mestu leyti prentað upp úr gömlu veðdeildarl. En ef á að brúa til nýja stofnun, eins og hv. 5. landsk. drap á, er hætt við, að þm. þurfi að athuga þann lagabálk, því nefndirnar þurfa að kynna sér form og efni.

Í þessu sambandi er ekki hægt að taka það mál til fyrirmyndar, sem hv. 2. þm. Eyf. sagði, að hefði verið afgr. á einum degi í hvorri deild. Það frv. var ekki nema nokkrar línur, og höfðu allir flokkar fallizt á efni þess fyrirfram. Slík mál er hægt að afgreiða fljótt, en það er ekki hægt að gera við frv., sem þarf að fara til n., sem væntanl. verður um frv. frá stj. Ég held því, að það yrði til þess að herða á stj., ef þessi till. yrði samþ., og ég vona, að hv. 5. landsk og hv. 2 þm. Eyf. séu sammála um nauðsyn þess að koma veðdeildinni af stað og vinni að því í sínum flokki, og það því frekar ef þeir hafa unnið að undirbúningi málsins.