27.07.1931
Efri deild: 13. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í D-deild Alþingistíðinda. (1611)

41. mál, veðdeild Landsbankans

Magnús Torfason:

Ég hygg það nægilegt þegar tillöguflytjendur fá það svar, að stj. sé að búa málið undir til þess að það verði lagt fyrir þingið. Ég býst fastlega við því, að stj. hafi sínar ástæður fyrir því, að frv. er ekki fram komið. Ég hefi yfirleitt litið svo á, að framsóknarflokksstj. hafi ekki þurft að nota keyri á sig. Ég hefi ekki í mörg ár þurft að nota keyri á hest og komizt þó allra minna ferða, og ég kann heldur ekki við að nota keyri á stj. (JBald: En ef jálkurinn verður staður?). Ég veit, að það eru til hestar, sem verða staðir, ef farið er að slá í þá, og þá sérstaklega, ef það er gert að þarflausu. Ég vil því biðja hv. flm. að taka till. aftur. Þeir hafa við þessa umr. fengið allt, sem þeir óska, og með samþykkt till. bæta þeir engu við.