27.07.1931
Efri deild: 13. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í D-deild Alþingistíðinda. (1613)

41. mál, veðdeild Landsbankans

Magnús Torfason:

Hv. 1. landsk. vildi láta svo sem ég vissi um þær ástæður, sem stj. hefði til þess að hafa ekki þegar afgr. þetta frv., sem hún hefir þegar lýst yfir, að hún hefði á prjónunum. Ég gerði það ekki, og það með ásettu ráði. Ég sagði aðeins, að ég byggist við því, að hún hefði ástæðu til þess. Þar í liggur, að ég þurfi ekkert að vita um þær ástæður, enda nú ekki bót að því að knýja þær hér fram til þess að henda þeim á milli sín.

Sami hv. þm. talaði um það, að þetta frv. hefði verið undirbúið í vetur, en aldrei komið fram, og þóttist ekki vita ástæðuna til þess. Ég hygg, að það hafi gerzt ýmislegt í þessu landi, síðan undirbúningur þessa máls var hafinn, sem ætti að gera mönnum skiljanlegt, að það hefði e. t. v. ekki verið sérstök ástæða til þess að ýta undir frv. á þeim tíma. Þessar ástæður komu í ljós í vor, og hv. 1. landsk. átti vissulega sinn þátt í því, og þann þátt, sem ég hafði ekki búizt við. Skal ég ekki fara lengra út í þetta, en um það má segja: verður það sem varir og ekki varir.

Þá vildi hv. þm. láta svo sem ég líkti hæstv. stj. við staðan hest. Slíkt hefði sízt setið á mér. Ég tók líkinguna af þessari fögru nytjaskepnu, sem allir unna, a. m. k. þeir, sem kunna að sitja á hesti. Og ég skal segja hv. þm., að framsóknarstj. hefir reynzt hinn mesti stjórnargæðingur, sem við höfum átt síðan stj. var fyrst mynduð hér á landi. Hann hefir fengið sín verðlaun rífleg á sýningunni, sem haldin var í vor fyrir þjóðinni. Það hafa ekki aðrar stjórnir fengið slík verðlaun. En ég vildi óska þess, ef það á fyrir hv. 1. landsk. að liggja að standa fyrir stj., eða flokki hans, að honum auðnaðist að fara svo vel að ráði sínu, að hann fái önnur eins verðlaun.