06.08.1931
Neðri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

1. mál, fjárlög 1932

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Í kvöldkyrrðinni hér fyrir nokkrum dögum flutti ég ræðu fyrir þeim brtt. mínum, sem ég sumpart flyt einn og sumpart með hv. þm. Borgf. En mestur hluti hins háa Alþingis var þá staddur niðri í K. R.-húsi, til þess að horfa á heimsmeistarann tefla skák. Og þótt ég bæði stólana þeirra fyrir skilaboð, þá veit ég ekki, hvort hv. þdm. hafa fengið þau með skilum. Það væri því réttast, að ég bæði hæstv. forseta um leyfi til þess að mega lesa aftur upp þessa ræðu mína, því að það er sama og að fleygja till. sínum skýringalaust fyrir þingið, ef maður talar einungis um þær við tóma stóla. Ég mun þó ekki biðja um þetta leyfi, þar sem margir hv. þdm. munu hvort eð er ekki vera komnir til þess að láta sannfærast.

Það er ekki nema eðlilegt, þótt hv. frsm. fjvn. segi ekki margt um hverja einstaka brtt. við frv., því að hann mun hafa verið einn þeirra, sem voru að læra af meistaranum, og hlustaði því ekki á þessa ræðu mína. Ég get því ekki mikilli vörn við komið, þegar hann segir með afarvægum orðum, að hann geti ekki fallizt á þessar till. minar í heild.

Ég vildi viðvíkjandi V. brtt. á þskj. 183, um styrkinn til vísindafél. og tónlistarskólans. endurtaka það, sem ég áður sagði, að hér er um brýna nauðsyn að ræða, og engar hugleiðingar um kreppu og fjárþröng mega standa í vegi fyrir samþ. þessara tillagna. Þessar upphæðir eru ekki svo háar, að ríkið muni nokkurn skapaðan hlut um að greiða þær, hvernig sem árar. Það sem verður að líta á, er, hvort þessar stofnanir eru þarfar eða ekki. Ég vil leyfa mér að fullyrða, að tónlistarskólinn er blátt áfram til stórkostlegs sparnaðar fyrir þjóðina, þó að honum verði lagt það fé, sem nú er farið fram á. Eins og nú er, þurfa þeir menn, sem á hljóðfæraleikurum þurfa að halda, að fá þá frá öðrum löndum og greiða þeim tugi þúsunda fyrir starf, sem Íslendingar sjálfir gætu innt af hendi, ef þeir hefðu tök á að fullkomna sig í þessari fögru list, tónlistinni. Þó að ekkert væri annað en það, að koma upp hóp góðra hljóðfæraleikara, sem gætu annað þeim störfum, sem þarf að vinna í þessum efnum í landinu, þá ætti Alþ. fúslega að veita nokkurn styrk til þess, að slíkt mætti takast. Nú er það svo, aðmilli 20 og 30 áhugasamir menn hafa lagt á sig mikið erfiði og fjárútlát, til þess að tónlistarskólanum mætti auðnast að starfa áfram og veita þeim þá þekkingu og fullkomnun í list sinni, sem þeim er nauðsynleg. Virðist því ekki vera nema eðlilegt, að Alþ. hlaupi nokkuð undir bagga með þessum mönnum.

Styrkinn til vísindafél., 1000 kr., ætla ég ekki að fara að verja á þeim grundvelli, að það sé beinn fjárhagslegur gróði að því að veita hann. En þetta fél. gefur nú út nokkur rit á erlendum málum, sem það svo sendir háskólum, vísindastofnunum og fræðimönnum víðsvegar um heim allan, og fær svo aftur frá þessum mönnum og stofnunum ný og merkileg sérfræðirit. Vísindafél. mun á þennan hátt brátt eignast allmerkilegt bókasafn, sem mundi kosta stórfé, ef þyrfti að kaupa það. Vitanlega er aðaltilgangur fél. að hafa félagsskap með hinum ýmsu sérfræðingum og fræðimönnum.

Um Gagnfræðaskóla Reykvíkinga þarf ég ekki að segja meira en ég hefi þegar gert. Menn vita, að þetta er einn af stærstu skólum landsins. Hann hafði síðastliðinn vetur um 120 nemendur og hið bezta kennaralið.

Þar sem það er viðurkennt, að þessi skóli er einn hinna beztu á landinu, þá virðist mér ekki ástæða til þess að eyða mörgum orðum að jafnsjálfsögðu máli eins og því, að hann fái þennan styrk.

Eina till. á ég, sem ég hefi enn eigi talað fyrir. Það er 1. till. á þskj. 205, sem ég flyt ásamt hv. þm. Dal. og hv. 3. þm. Reykv. Hún fjallar um það, að styrkur sá, sem hefir staðið í fjárl. undanfarið til Karlakórs Reykjavíkur, fái að haldast.

Reynslan sýnir, að kórsöngvar eru hvarvetna mikils metnir á meðal hinna menntuðu þjóða, einkum þó karlakórssöngvar. Það er áreiðanlegt, að við Íslendingar höfum hæfileika til þess að komast mjög langt á þessu sviði sönglistarinnar, en það er líka áreiðanlegt, að fullkomnun á því sviði kostar mikið erfiði og mikið fé. Það er afarnauðsynlegt, að hinar einstöku raddir séu þrautæfðar, svo að hægt sé að beita þeim til fulls hvort er á háum eða lágum tónum. Karlakór Rvíkur vantar tilfinnanlega æfingu og góða tilsögn um nokkurt skeið, svo að hann geti tekið verulegum framförum. Það er auðvitað, að þessi litli fjárstyrkur, sem hér er farið fram á, getur ekki nægt til þess að útvega fél. þá kennslu, sem það þarf að fá sér. Meðlimir kórsins verða að leggja fram mikið fé, auk þess sem þeir verða að fórna miklum tíma í starf sitt og nám, því það er afarerfitt að halda uppi slíku söngfél. hér á landi. Ég vona, að Alþ. muni nú eins og að undanförnu leggja þessu fél. nokkurt fé, svo að þeir menn, sem í því eru, þurfi ekki að hætta með öllu við sönginn, en geti aflað sér þeirrar kennslu, sem þeim er nauðsynleg, og komist svo langt á vegi fullkomnunarinnar sem kraftarnir framast leyfa þeim.

Þótt það snerti mig ekki sérstaklega, þá get ég ekki stillt mig um að minnast á till. um heimild til þess að tryggja ríkinu lóðirnar við Lækjargötu, milli Bankastrætis og Amtmannsstígs. Þetta hefir vakið talsvert umtal, og ég vil fyrir mitt leyti mæla með því, að stj. fái þessa heimild. Það stoða í þessu efni ekki neinar hvatningar um það, að eftir 100 ár myndi borga sig að kaupa og rifa niður þau hús, sem á lóðunum standa. Ég vil bókstaflega ekki hafa þessa húshjalla í 100 ár á þessum lóðum. Ég vil, að reynt verði svo fljótt sem unnt er og byggja á þeim skrauthýsi til prýði fyrir borgina. Það er hörmung að hugsa sér það, að þessi bær, sem stendur á fegurri stað en flestir bæir í veröldinni, og er vel til þess fallinn að gera úr honum listaverk, skuli líta út eins og hann gerir. Ég vil t. d. benda á, hvernig farið hefir verið með svæðið fyrir vestan tjörnina. Á nokkru af þessu svæði er verið að rækta tré. Þar á að vera skemmtigarður fyrir bæjarbúa. Til beggja hliða liggja grasi vaxnar brekkur, og þar sem byggðin byrjar, er alveg tilvalinn staður fyrir opinberar byggingar. En hvað er gert? Menn flýta sér auðvitað að hrúga þarna upp allskonar sundurleitum húskofum. Þessar lóðir eru svo dýrmætar, að þær verða í framtíðinni keyptar hvaða verði sem er undir hinar opinberu byggingar.

Það, sem hv. 1. þm. Rang. sagði um þetta mál, fannst mér alveg eins talað út úr hjarta bæjarstjórnarinnar gömlu. Bæjarstj. átti sinn drjúga þátt í því að gera bæinn ljótan, með allskonar smekkleysi í húsabyggingum. Ég er að mörgu leyti ánægður með stj. bæjarins mála, en það er blátt áfram eins og gert hafi verið samsæri um það að láta bæinn líta sem allra verst út. Það er raunar engin furða, þótt menn, sem aldir eru upp í slíkum skoðunum, séu á móti því, að bærinn tryggi sér lóðir, sem hann hefði fyrir löngu átt að vera búinn að eignast, t. d. undir hið væntanlega ráðhús. En úr því að bærinn hefir nú ekki tryggt sér þessar lóðir, þá er ég sárfeginn því, að ríkið skuli nú ætla sér að gera það. Hvort byggt verður fyrr eða síðar á þessum lóðum er ekkert aðalatriði. En ég er hinsvegar alveg viss um, að það líður ekki öld þangað til, einungis nokkur ár. Það er óhjákvæmilegt, að ýmsar opinberar byggingar verði byggðar innan skamms. Ég býst ekki við því, að þessi ómyndarskemma, sem nefnd er Arnarhváll, verði lengi látin duga, heldur verði byggt stjórnarráðshús, þar sem allar skrifstofur ríkisins rúmast. — Staðurinn milli Bankastrætis og Amtmannsstíg er alveg mátuleg framhlið eins húss, mig minnir að það séu um 70 metrar, eða eins og framhlið nýja barnaskólans. Væri þarna tilvalinn staður fyrir veglega stjórnarráðsbyggingu, eða þá fyrir höll hins tilvonandi lýðveldisforseta.

Mér er með öllu óskiljanlegt, að hv. 1. þm. Rang. skuli vilja tylla forsetahöllinni einhversstaðar út fyrir bæinn. Það er satt að segja ekkj of mikið af skrauthýsum hér, þótt ekki verði farið með þau vestur að Kaplaskóli eða inn að Elliðaám. Það er nóg, að þjóðleikhúsið verði grafið innan um húsin við Hverfisgötuna, þótt ekki verði svo farið með önnur skrauthýsi langt út fyrir bæinn. (EA: Við eigum nú Skildinganes bráðum). Ef til vill á að setja forsetahöllina sunnan við Öskjuhliðina, til bæjarprýði þar.

Ég hafði hugsað mér að segja nokkur orð um 2. till. á þskj. 207, frá hæstv. fjmrh. Sérstaklega ætla ég að minnast á hana af því að ég verð svo glaður að heyra, þó ekki sé nema rétt einu sinni, rödd hæstv. fjmrh., af því að maður hélt, að hann væri ekki til. Meðan verið var að afgr. fjárl., þá heyrðist aldrei í hæstv. ráðh., svo að það er gaman að heyra, að hann skuli þó muna eftir því, að hann er fjmrh. (Forsrh.: Ég talaði 16 sinnum við 1. umr. fjárl.). — Það er hugmynd okkar hv. þm. Borgf. að setja einhvern slíkan varnagla sem þessi brtt. felur í sér. En það er gott, ef hægt er að koma þessum hugmyndasnauðu mönnum eitthvað úr höfn, þótt það sé dálítið einkennilegt, hvernig þetta hefir snúizt fyrir hæstv. stj. Eftir okkar till. voru þær ályktanir dregnar af hóflausri umframeyðslu stj. á undanförnum árum, að Alþ. yrði nú að tryggja sitt vald, þegar ágreiningur yrði á milli þess og stj. um fjárveitingavaldið. Þetta vildi stj. og hennar flokkur ekki gera. En í stað þess hefir till. okkar snúizt svo í höndum stj., að með því að samþ., hana eins og hún er nú, þá er stj. tryggt fjárveitingavaldið sem svarar að ¼ hluta. Mér sýnist muni vera hægt að túlka þessa till. svo, að stj. geti misbeitt valdi sínu mjög hatramlega.

Þegar hæstv. ráðh. mælti fyrir till., gerði hann ótrúlega margar játningar. Hann sagði m. a., að í hverju góðæri safnaðist mjög mikið fyrir í ríkissjóð, og þessu þyrfti að eyða. Það þyrfti að enda hvert góðæri með stórri hreingerningu. Einnig sagði hann, að það sem væri eðlilegt í góðærunum, væri ekki eðlilegt í þeim vondu. Það er að segja, hæstv. ráðh. er farinn að sjá, að stj. hefir farið óviturlega að ráði sínu í góðærunum. Engin stj. myndi hafa farið jafnóviturlega að á góðu árunum og þessi stj. hefir gert. Hverjum skynsömum manni má vera það ljóst, að eftir gott ár getur komið erfitt ár. Það er því hyggilegra að sóa ekki öllu fénu þegar á góðærunum.

Þetta hefði stj. átt fyrir löngu að sjá. Ef hún gat ekki af eigin ramleik komið auga á það, þá átti hún a. m. k. að taka aðvaranir og bendingar andstæðinganna til greina. Svo segir stj. á eftir, að það hafi safnazt svo mikið inn í góðærunum, að það hafi þurft að sópa því burt. Í erfiðu árunum ætti ríkisstj. einmitt að geta aukið opinberar framkvæmdir og hamlað atvinnubresti.

Ein er sú till. enn, sem ég verð að minnast á. Það er till. sú, sem hv. 2. þm. Rang. flytur á þskj 183, IX, sjúkrastyrkur til Sigríðar Kjartansdóttur vegna sjúkleika manns hennar, séra Jakobs Ó. Lárussonar.

Eins og við vitum, hefir Alþingi áður veitt slíka styrki, en það hefir þó alltaf verið fljótlega hætt við þær styrkveitingar, sökum þess, að ómögulegt var fyrir ríkið að liðsinna öllum þeim, sem þá gátu komið og gert kröfur.

Þessi till. er nokkuð óvanalega, en ég ætla samt sem áður að greiða atkv. með henni. Vil ég þá lítillega gera grein fyrir atkvgr. minni.

Hv. 2. þm. Rang. sagði, er hann mælti fyrir till., að allir vissu, hvernig á þessum styrk stæði. Já, það er satt, að það vita allir, hvers vegna hann er nú fram kominn, það er beinlínis vegna ráðstafana hins opinbera. Hér er til ágæt stofnun fyrir þá menn, sem þjást af slíkum sjúkdómum sem þessi maður. Henni hefir verið komið upp með ærnum kostnaði og búið að ráða ágætan sérfræðing, sem er þekktur um öll Norðurlönd fyrir vísindamennsku, til þess að veita stofnuninni forstöðu. En svo gerir einn ráðherranna, sem hv. 2. þm. Rang. einmitt styður, sér lítið fyrir og rekur hann burt, einungis af því að ráðh. vildi hefna sín fyrir persónulega mótgerð. Þannig var þessi eini bjargvættur hinna sárþjáðu manna hrakinn burt frá spítalanum. Afleiðing þessa er sú, að nú ganga hundruð manna og verða að leita sér ásjár annarsstaðar.

Þessi burtrekni læknir hefir sem betur fer ekki farið af landi burt, en það er samt afarkostnaðarsamt að njóta lækninga hans. Ekki svo mjög frá hans hendi, heldur vegna þess, hve miklum erfiðleikum það er bundið að koma slíkum sjúklingum fyrir. Ég veit dæmi til þess, að þurft hefir að greiða 96 kr. á sólarhring með slíkum sjúklingi. Hið venjulega er svona frá 12 upp í 35 kr.

Allan þennan kostnað þurfa sjúklingarnir að greiða, vegna þess, að einn ráðh. þurfti að hefna sín.

Mér finnst því alveg sjálfsagt að koma með aðra eins styrkbeiðni eins og þessa, sem hv. 2. þm. Rang. flytur. Það er eins og hið opinbera sé að kannast við ávirðingar sínar.

Ég mun greiða atkv. með hverri fjárbeiðni, sem fram kemur frá þessum sjúklingum, unz spítalinn er aftur kominn í gott horf.

Ég held, að það sé ekki fleira, sem ég hefi ástæðu til að segja að þessu sinni.