17.08.1931
Neðri deild: 31. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í D-deild Alþingistíðinda. (1650)

28. mál, vegamál

Frsm. (Sveinn Ólafsson) [óyfirl.]:

Ég átti von á því, að út af þessari till. yrðu nokkrar deilur. En þó að hv. flm. hafi brugðið mér um skilningsskort og þekkingarleysi, þá læt ég það sem vind um eyru þjóta. En ég held, að ég verði að segja honum, að ég hefi eins mikla þekkingu á þessum hlutum og hann og eins víða farið og hann og séð og virt fyrir mér þessa hluti. Hann veit það eins vel og ég, að á meðan ekki eru efni til að leggja meira fram til vega en gert er nú, er ekki unnt að koma nema tiltölulega litlu af þessum umbótum í verk. Það hefir verið viðurkennt af mörgum, að það verði að leggja allt kapp á að fá vegalengdirnir sem allra mestar.

Hvað viðvíkur því, sem hv. flm. sagði, að ég mundi bera skyn á það eitt, hvernig haga beri siglingum um Mjóafjörð, læt ég mig litlu máli skipta. En honum varð það á sem fyrr að hann rangfærði orð mín og sagði, að ég teldi þessar umbætur óþarfar. Þetta stendur hvergi í nál., en þar er aðeins sagt, að sumt af þessu sé miður þarft, en hinsvegar er viðurkennd nauðsynin á öðrum. En hv. flm. sagði líka annað, sem mig furðaði á að heyra, að um kostnað væri ekki að ræða við þessar umbætur. Það er undarlegt, ef það kostar ekki neitt að gera þessar umbætur á vegum o. fl., sem farið er fram á í till. Sama er að segja um allar hinar till. Þær hafa allar meiri og minni kostnað í för með sér. En úr þessum ágöllum verður að bæta smátt og smátt, eftir því sem efni leyfa. Úr sumu er búið að bæta, en úr hinu verður að bæta, þegar tækifæri gefst. (HV: Úr hverju er búið að bæta?). Það hafa t. d. verið settir upp steinstöplar til og frá á vegum til varnar gegn því, að ekið sé út af. En það eru til aðrar aðferðir, sem eru öruggari. Á stöku stöðum eru höfð sterk bönd meðfram vegum, og þau varna í raun og veru miklu betur heldur en steinstöplarnir.

Yfirleitt eru allar þessar umbætur, sem farið er fram á, þess eðlis, að það virðist ekki þörf á að minna á þær, því þær munu koma koll af kolli. Annars læt ég mér í léttu rúmi liggja, hvað um þetta er sagt, og ég álít, að það muni vera höggið í sama farið, hvort till. er samþ. í einstökum liðum eða ekki.