18.08.1931
Neðri deild: 32. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í D-deild Alþingistíðinda. (1660)

28. mál, vegamál

Jónas Þorbergsson:

Ég vil taka undir við þá hv. dm., sem látið hafa það í ljós, að afgreiðsla samgmn. á þessum málum hefði getað verið betri. Þótt svo sé litið á, að sumir liðirnir á þskj. 28 orki tvímælis, þá eiga aðrir fullan rétt á sér og því, að þeir verði látnir koma undir atkv. deildarinnar. Skildist mér á hv. frsm. samgmn., að n. hafi leitað álits vegamálastjóra um þessa till. til þál., og hafi það verið fyrir mótþróa hans, að n. afgr. málið á þennan hátt. Skil ég, að vegamálastjóri kæri sig ekkert um það að láta n. segja sér fyrir verkum, en þótt margt gott sé um hann að segja, þá mætti hann sýna meiri röksemi í þessu máli en verið hefir, einkum að því er kemur til þeirra liða till., er fjalla um ráðstafanir til varnar slysum og þess háttar.

Vegir teygja sig nú smámsaman um allar byggðir landsins, bílaumferð vex og þar með slysahættan, og er því fyllilega tímabært að gera varúðarráðstafanir. Mun ég því fylgja sumum liðum till., þó að ég treysti mér ekki til að greiða atkv. með þeim öllum.