18.08.1931
Neðri deild: 32. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í D-deild Alþingistíðinda. (1665)

28. mál, vegamál

Jónas Þorbergsson:

Ég vil taka það fram vegna þess, sem hv. þm. Borgf. sagði út af ummælum mínum um þessa till. og í garð vegamálastjóra, að því fer mjög fjarri, að ég vilji nokkrum steini að honum kasta. Þvert á móti tók ég það fram, að mjög margt gott mætti segja um þennan embættismann, enda hygg ég, að hann hljóti viðurkenningu flestra þeirra, sem til þessara mála þekkja. En engu að síður er það ofmælt hjá hv. þm. Borgf., að vegamálastjóri hafi innleitt hér allar þær nýjungar í vegagerð, sem í nágrannalöndum okkar tíðkast, og þessi till. bendir til þess, að ekki líti allir þm. sömu augum á þetta sem hv. þm. Borgf., því að sum atriði till. eru ljós vottur þess, að svo hefir ekki verið. Vil ég í því sambandi benda á 3 liði till., og þá fyrst og fremst 2. lið, þar sem talað er um, að steinstöplar verði settir upp á vegbrúnum til varnar akstri út af vegum, þar sem hátt er niður af veginum. Eins og kunnugt er, eru vegabrúnir hæstar þar, sem ræsi eða brýr eru gerðar á vegum, og má öllum vera ljóst, að hagkvæmast væri og mest til verksparnaðar að reisa upp slíkar varnir gegn slysum um leið og sjálf ræsin eru gerð. Þetta mun ekki hafa verið regla. Þá minnist ég þess ekki, og hefi ég þó allvíða farið um þetta land, að ég hafi neinstaðar séð slík hættu- eða viðvörunarmerki, sem um getur undir 6. lið till. Er þetta altítt erlendis, til þess að vekja athygli bílstjóra og annara þeirra, sem umferð stjórna, á hættunum. — Í 7. lið till. er talað um það, að settir verði upp leiðarvísar við vegamót til leiðbeiningar ókunnugum vegfarendum. Hefi ég ekki orðið var við neina slíka leiðarvísa, svo nauðsynlegir sem þeir eru.

Það er ekki rétt hjá hv. þm. Borgf., að þessar og aðrar framkvæmdir, sem getur í till., séu svo kostnaðarsamar, að vegamálastjóri hafi ekki getað komið þeim við, heldur hefir honum annaðhvort ekki hugkvæmzt þetta, eða þá látið það undir höfuð leggjast af öðrum ástæðum, og þess vegna er þessi till. einmitt fram komin.