24.07.1931
Neðri deild: 11. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í D-deild Alþingistíðinda. (1675)

21. mál, sala viðtækja

Jónas Þorbergsson:

Ég vona, að ekki verði tekið til þess, þótt ég leggi orð í belg um þetta mál, einkum þar sem því er ætlað að ganga nefndarlaust gegnum þingið.

Till. þessi er svipuð till., sem liggur fyrir á þskj. 33, en þó er sá munur á, að þessi till. er samkv. uppruna sínum miðuð við kaupstaði, þar sem mánaðarafborganir koma varla til greina hjá bændum, en hin er fremur miðuð við sveitirnar.

Mér finnst það satt að segja hæpin stefna, að ætla sér að fara að láta Alþingi ákveða um það, að ríkisverzlun skuli vera rekin sem áhættufyrirtæki. Það er alkunnugt, að socialistar eru með ríkisrekstri alstaðar um heim, en hitt er sjaldgæfara, að þeir krefjist þess, að ríkisfyrirtækin séu rekin með tapi, eins og óneitanlega er hætta á að verði hér, ef þessi þáltill. nær fram að ganga. Ég álít, að í þessu efni eigi borgararnir sjálfir að bindast samtökum, t. d. með einhverskonar samvinnufélagsskap til að afla sér tækjanna, eða að sveitar- og bæjarfélög gangi í ábyrgð fyrir meðlimi sína, svo að jafnan sé öruggt, að tækin fáist greidd. Ég býst við, að forstöðumönnum verzlunarinnar þætti undarlegt, ef þeir fengju skipun um það frá þinginu að reka verzlunina sem áhættufyrirtæki. Ég get frestað til næstu umr. að upplýsa, hve mikið rekstur þessarar verzlunar kostar nú ríkissjóð, en get aðeins upplýst nú, að verið er að leitast við að útvega fé án þess að leita til ríkissjóðs, en slíkt tekst vitanlega ekki, ef á að fara að reka verzlunina á þann hátt sem þáltill. þessi ætlast til. Ég álít ekki rétt, að þetta mál gangi nefndarlaust gegnum þingið og legg því til, að því verði vísað til allshn.