24.07.1931
Neðri deild: 11. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í D-deild Alþingistíðinda. (1677)

21. mál, sala viðtækja

Forsrh:

(Tryggvi Þórhallsson): Ég vil styðja þá till. hv. þm. Dal., að umr. sé frestað og málinu vísað til fjhn. Það lítur að vísu sakleysislega út á pappírnum, að ríkisstj. hlutist til um, að viðtækjaverzlunin breyti sölufyrirkomulagi sínu, en það er jafnframt augljóst, að enginn getur selt vörur með löngum gjaldfresti án þess að auka fjármagn sitt eða lánstraust. Ríkið yrði því að afla fjármagns eða lánstrausts í þessu skyni, en flm. gerir enga grein fyrir, hve það myndi nema miklu. Ég álít sjálfsagt að athuga vel áður en farið er að skora á ríkisstj. að efna til skuldaverzlunar í stórum stíl.

Eins og oft hefir verið bent á, þá eru erfiðir tímar nú, og það er mjög vafasamt, hvort rétt sé að ýta undir menn að stofna til nýrra skulda með því að kaupa viðtæki. Þetta er auðvitað framfara- og menningartæki, en það er nú svo, að á krepputímum verða einstaklingarnir að fá hvatningu um það að leggja ekki í mikinn aukinn kostnað. Þess vegna vil ég óska þess, að málið fái ekki afgreiðslu nú, heldur verði látið fara til n., sem athugi allar hliðar þess. Ég vil beina því til hv. flm. í þessu sambandi, hvort ekki væri skynsamlegra, ef um takmarkað fjármagn er að ræða, að beina því frekar til verklegra framkvæmda heldur en draga til landsins í stórum stíl dýr viðtæki.