06.08.1931
Neðri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

1. mál, fjárlög 1932

Sveinn Ólafsson:

Hv. frsm. fjvn. hefir nú kveðið upp nokkurskonar stóradóm yfir flestum brtt. einstakra þm. Mér fannst hann leggja þær flestar niður við sama trogið. Að vísu snertir þetta mig ekki mikið, því að ég á þar aðeins eina og smávægilega till. Hún er á þskj. 194, IV, og veit ég ekki gerla, hver forlög hennar verða, en um hana hefi ég áður talað. Hv. frsm. tók að vísu ekki mjög harkalega á till., en þó fannst mér hann heldur andvígur henni. Ég ætla ekki að gera neina rekistefnu út úr þessari till., en bíða og sjá, hvað verður við atkvgr. Hinsvegar er ein önnur till., sem ég á á þskj. 183 með hv. þm. Vestm., og er mér dálítið annt um hana. Hún er í sjálfu sér smávægileg, en þó hygg ég hana ekki þýðingarlitla og nokkuð athugavert að fella hana. Mér fannst hv. frsm. líta svo á, að þessi till., sem lýtur að 1500 kr. fjárveitingu til að gefa út kennslubók í spönsku, væri borin fram af fordild og hégómaskap, en það er alls ekki rétt. Ég álít, alveg eins og hv. 1. flm. till. tók fram, að það hafi mikla þýðingu fyrir Íslendinga almennt að geta kynnzt spönsku á auðveldan hátt, því að margt bendir til þess, að viðskipti vor við Spánverja muni fremur aukast en minnka, en Spánverjar kaupa nú meira af útflutningsvörum Íslands en nokkur önnur þjóð.

Það er þess vegna hyggilegt að greiða götu viðskiptanna við Spán með útgáfu bókarinnar og mætti vel vera, að Spánverjar teldu sér með útgáfunni sóma sýndan. Ég vil í þessu sambandi minna á atvik, sem gerðist fyrir nokkrum árum. Hið svonefnda fjárhagsráð Spánar leitaði þá til þingsins og stjórnarinnar um það að fá að hafa hér bækistöð fyrir togaraflota spanskan, sem var þá í myndun. Sótt var um að fá að halda hér til á líkan hátt og Englendingar fengu um nokkurt árabil í Hafnarfirði. Jafnframt þessu vorum við átakanlega minntir á það, að viðskipti okkar við Spán væru að öllu í okkar hag. Var því þar haldið fram, að Spánverjar keyptu íslenzkan fisk árlega fyrir 30–40 millj. peseta, en öll kaup Íslendinga á spönskum vörum næmu aðeins 130 þús. pesetum og væri eingöngu salt. Var í erindi fjárhagsráðsins nokkuð fast að orði komizt um þetta og gefið ljóslega í skyn, að Íslendingum bæri að láta einhver fríðindi koma í móti hagsmunum þeim, sem þeir nytu á Spáni. En þó að þetta mál væri fast sótt, þá fór svo, að óskir Spánverja um að fá að halda hér til með togara sína, voru að engu hafðar, auðvitað af gildum ástæðum. En það er samt óneitanlegt, að vér stöndum að vissu leyti í þakklætisskuld við þessa þjóð og getum vænzt þess, að þau kjör, sem við höfum notið þar hingað til, verði erfiðari, þegar stundir liða. A. m. k. varð þess vart nýlega, að vöknuð var hreyfing þar syðra, að vísu ekki á Spáni, heldur í Portúgal, þar sem sala á íslenzkum fiski hefir verið mikil, um að hækka tollinn á fiskinum að verulegum mun, enda er þess getið til af ýmsum kunnugum mönnum, að tollkjör þau, sem vér höfum búið við síðan 1922 á Spáni, muni bráðlega breytast og verða erfiðari, og að viðskipti öll við Suðurlönd torveldist, ef ekki er að þeim hlúð.

Hér er í raun og veru ekki nema um litla viðleitni að ræða til að sýna, að við viðurkennum á einhvern hátt, að okkur séu viðskiptin hagfelld við þessar þjóðir, og að við gerum okkur far um að styðja okkar land til þess að komast í nánari kynni við þessa þjóð, eins og við mundum gera á þennan hátt. Ég segi ekki, að þetta sé neitt stórvægilegt bjargræði eða fullkomin lausn í því efni að binda haldkvæm viðskiptasambönd við Spán, en það er þó dálítil viðleitni. Þetta er svo lítil fjárhæð, að það skiptir engu máli í sambandi við aðrar fjárveitingar, hvort hún flýtur með eða ekki. En ef vér samþ. till., þá hefir það tvennskonar þýðingu. Fyrst það, að þeim, sem skipta við Spánverja, er gert auðveldara fyrir eftirleiðis, og í öðru lagi verður oss ekki borið á brýn, eins og verða mundi, ef till. yrði felld, að vér forðumst aukin viðskipti við Spánverja og viljum engin mök við þá eiga. Vitanlega hlýtur margt fleira að koma til greina til að auka kynningu milli þessara tveggja þjóða, en kunnátta málsins verður þó alltaf fyrsta byrjun í þá átt.

Ég vil svo ekki eyða fleiri orðum um þetta, en mér fannst ég verða að minna á þessa till. áður en atkvgr. færi fram. Um fjárl. almennt skal ég ekki ræða, það hefir verið sagt svo margt um þær tvær meginstefnur, sem fram hafa komið í till. hv. þm., að ekki er eyðandi að þeim orðum fleiri.