24.07.1931
Neðri deild: 11. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í D-deild Alþingistíðinda. (1680)

21. mál, sala viðtækja

Magnús Jónsson:

Það kemur sér náttúrlega ekkert illa fyrir mig að fá aðra eins ástæðu fyrir mínu frv. eins og þessar umr. nú í dag. Því hér standa þessir góðu fylgismenn einkasölunnar hver á móti öðrum og brölta alveg hjálparlausir í sínu eigin neti. Annarsvegar koma menn fram og segja, að það sé ekkert vit í því að vera að reisa útvarpsstöð, sem kostað hefir um eina millj. króna, og vilja svo ekki greiða fyrir því, að menn geti eignazt viðtæki. Hinsvegar koma aðrir og segja, að það sé hægt að gera eitthvað þarfara við peningana en fara að festa þá í verzlun með viðtæki. Þetta er alveg laukrétt, og þessir góðu menn hanga svo þarna eins og hrútar kræktir saman á hornunum og komast ekkert. En á þessu öllu saman er til þessi einfalda lausn: að láta ríkið hætta að verzla með þetta og gefa verzlunina frjálsa. Þá er ríkið losað við að þurfa að festa sína fjármuni og viðskiptamönnunum tryggð góð vara með góðum greiðsluskilmálum.

Hv. þm. Dal. spurði, hvaða trygging væri fyrir því, ef búið væri að gefa verzlunina frjálsa, að tækin yrðu seld með afborgunum. Það er ekki lagatrygging fyrir því, en þetta sýnir, hvað þessi hv. þm. er blindur á það mál, sem hann er að berjast á móti. Veit hann ekki, að alstaðar þar, sem menn eru í samkeppni, fá menn vörur með afborgunarskilmálum? Ég skal taka hljóðfærin sem dæmi. Þau eru hliðstæð viðtækjum hvað verðið snertir. Hér í Reykjavík er fjöldi hljóðfæraverzlana, sem keppast hver við aðra um að selja hljóðfæri með afborgunarskilmálum til langs tíma. Ég held, að verzlun á útvarpstækjum hafi verið byrjuð þannig áður en einkasalan tók til starfa, og hefði vafalaust komizt í mesta blóma, eftir því sem markaðurinn hefði aukizt. Það eru svo sterk rök fyrir því að gefa verzlunina frjálsa, að meðhaldsmenn hennar eru komnir hér hver á móti öðrum og togast á. Annars ætti hv. flm. að koma með áætlun um það, hve mikið fé þarf að festa í þessu fyrirtæki; honum ber beinlínis skylda til þess.

Hv. flm. sagði, að ég hefði komið með málið frá alveg spánýrri hlið. Það er sannarlega ekki ný kenning, að hagkvæmasta verzlunarleiðin sé hin frjálsa samkeppni. Hann sagði, að ríkið myndi græða um 100 þús. kr. á verzluninni — ég hygg nú, að það séu 150 þús. kr. — og að það myndi vera það, sem einstakir kaupmenn vildu ná í. En þetta er rökvilla hjá hv. þm.; hin frjálsa samkeppni myndi aldrei leyfa svona mikla álagningu, ekki nema örlítinn part af þessu. Það myndi ekki líða á löngu unz 3 eða 4 menn myndu hafa alla verzlunina í sínum höndum, og þeir þættust sjálfsagt gera vel, ef þeir hefðu sínar 7–10 þús. kr. hver í arð. Þetta er munurinn á frjálsu samkeppninni og einkasölu. Af því að nú er einkasala, þá er hægt að leggja þennan mikla skatt á vöruna.

Þá kom hv. þm. með það, sem alltaf er fært fram í þessum málum, að þegar öll verzlunin væri á einni hendi, þá væri hægt að fá bezt innkaup. Reynslan er nú búin að kveða þetta niður. Einstaklingarnir, sem eiga afkomu sína undir því, að verzlunin sé í lagi, beita síðustu kröftum til þess að fá sem bezt innkaup. Það er mikill munur á því eða þegar verið er að gera einungis forsvaranleg innkaup fyrir einkasölu. Ef einstakir menn hefðu verzlunina og skiptu við svo sem 3 félög, við skulum segja Philips, Marconi og Telefunken, og keyptu af því félaginu, sem bezta vöru byði, þá myndu félögin keppast um það að hafa vöruna á allan hátt sem fullkomnasta. En ef einkasalan hefði verzlunina, þá myndi hún skipta aðeins við eitt félag, og þar með væri hvatning sú, sem áður var til vöruvöndunar, horfin. Það er algerlega út í bláinn, ef menn ímynda sér, að verzlunin myndi verða hagfelldari, ef skipt er aðeins við eitt firma.

Ég ætla annars ekki að fjölyrða frekar um mál þetta en orðið er, en vil þó geta þess, að ég hefi ekki á móti því, að það fari til nefndar, og vil óska, að hv. nefnd komist að þeirri niðurstöðu, að bezt verði að leysa alla hnúta þannig, að ekki sé hallað á einstaka menn.