24.07.1931
Neðri deild: 11. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í D-deild Alþingistíðinda. (1681)

21. mál, sala viðtækja

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Hv. þm. Dal. talaði á þá lund, sem ég hefði getað búizt við, að hv. sessunautar mínir til hægri hefðu gert, en ekki hann.

Í fyrri hluta ræðu sinnar talaði hann um, að socialistar gerðu sífellt kröfur, en hugsuðu ekki um að gegna þeim skyldum, sem þeir hefðu gagnvart kjósendum sínum. Ég hélt satt að segja, að þvílík ummæli væru líkari því, að þau kæmu frá hv. 1. þm. Rang. eða hv. þm. G.-K., en ekki þessum hv. þm., sökum þess að hann hefir sungið í allt öðrum tón á landsmálafundum nú undanfarið. En það gengur nú svona með ýmsa hv. þm., að það er eins og tóntegundin breytist strax og þeir komast inn í þingsalinn, þannig að þótt þeir syngi í moll við kjósendurna, syngja þeir í dúr þegar í þingsalina kemur.

Hér er ekki verið að tala um hóflausar kröfur, heldur verzlunarhætti, og hv. þm. veit, að það er hægðarleikur fyrir þá, sem verzla og stjórna stórum fyrirtækjum, að ná góðum samningum við viðskiptamenn sína, og ég geri ekki ráð fyrir, að til þess að taka upp afborgunarsölu þurfi að festa meira af ríkisfé en 100–200 þús. kr.

Hv. þm. minntist á verzlunarhætti bænda, en ég get bent honum á, að þeir verzla aðallega við kaupfélögin, en þau hafa einmitt víðast hvar útsölu á þessum tækjum, þannig að bændur þurfa ekki að leggja fram beinharða peninga þegar kaupin fara fram, heldur eru tækin færð inn í reikning þeirra þar til gert er upp.

Þá drap hv. þm. á forsögu mína og lífsreynslu og minntist á það, að ég hefði um skeið veitt kaupfélagi Reykjavíkur forstöðu. Ég veit satt að segja ekki, hvort ég á að fara nánar inn á það mál, hv. þm. til hrellingar, en ég vil þó aðeins benda honum á það, að ég hefi vottorð frá manni innan hans flokks, sem hann metur mjög mikils, þar sem sagt er, að ég hafi gegnt mínu starfi prýðilega og komið kaupfélaginu á réttan kjöl.

Þar var lánað út til viðskiptamannanna og engum dettur í hug, að lánsverzlun yfirleitt sé áhættulaus. En hér er allt öðru máli að gegna, því að áhættan er svo hverfandi lítil. Ég ætlast ekki til, að tækin séu eign manna fyrr en þau eru að fullu greidd. Segjum t. d., að eftir 10 mánuði hætti kaupandi að greiða af tækjunum; þá hafa verzlanirnar menn í sinni þjónustu, sem þær geta látið taka niður tækin. Þetta væri í flestum tilfellum hagnaður fyrir einkasöluna, en sjaldnast tap, því að í fáum tilfellum kynnu tækin að vera orðin ónýt, en í flestum tilfellum nýtileg.

En það, sem meginþunginn hvílir á, er vitanlega þetta, að dagskrá útvarpsins sé þannig, að menn sækist eftir að hlýða á hana, því að þá stritast menn í lengstu lög við að borga, en ef menn hinsvegar fá leiði á dagskránni, sinna þeir ekki um að standa í skilum.

Ég veit satt að segja ekki, hvort ég ætti að fara að deila við hv. 4. þm. Reykv. um frjálsa verzlun og einkasölu. Eitt verð ég þó að benda honum á. Hv. þm. sagði, að ef verzlunin væri frjáls, þá myndu tækin lækka í verði vegna samkeppninnar, og að svo myndi fara, að verzlunin myndi dragast í hendur þriggja til fjögurra manna, sem beztu tækin hefðu, og þeir myndu láta sér nægja með að græða svona 7–10 þús. kr. á tækjunum. Þetta kann að vera rétt að nokkru leyti, að því leyti, að verzlunin myndi færast í hendur fárra manna. En svo mikið þekki ég til hinnar frjálsu samkeppni, að ég get fullyrt, að þegar svo er komið málum, að verzlunin er í höndum fárra manna, þá slá þeir sér saman og ákveða lágmarksverð á tækjunum, til þess að geta grætt meira. Og vantrúaður er ég á það, ef þeir geta ráðið verðinu, að þeir láti sér nægja 7–8 þús. kr. fyrir „amstrið“.

Annars veit ég ekki betur en að tækin séu seld hér fyrir lægra verð en annarsstaðar. (MJ: Þau voru ódýrari áður). Það kann vel að vera, en hv. þm. er kunnugt um, að tækin hafa lækkað frá því, sem var áður en einkasalan komst á. Um það, að fé ríkissjóðs sé fest í vörum, er það að segja, að ég hygg, að það sé nú frekar lítið, þótt ég viti ekki um, hvað mikið það er, en hitt mun óhætt að fullyrða, að ef verzlunin yrði gefin frjáls, þá reyndi miklu meira af veltufé þjóðarinnar fest en nú, meðan verzlunin er ein og rekin af ríkinu.