06.08.1931
Neðri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

1. mál, fjárlög 1932

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Sessunautur minn, hv. 1. þm. Rang., gerði stutta aths., sem hann flutti svo á 20 mínútum, og þessi mæti maður talaði þar með þeim hita og eldmóði, sem hann er óvanur að viðhafa. En það, sem gladdi mig, var, að af niðurl. ræðunnar sást, að hann er smekkmaður, sem liður beinlínis illa, ef hann sér reist jafnljót hús og hv. 4. þm. Reykv. býr i. Þessi hv. þm., sem leggur svona mikið upp úr bæjarprýðinni, hefir og sýnt það í verkinu með því að festa kaup á einu prýðilegasta húsi bæjarins. Og ef á að leggja vexti við það, sem húsið kostaði, þá mun það kosta hann nokkrar millj. kr. áður en þessi öld er á enda. Ef hann hefir nú þessa lífsskoðun, og þar sem hann er maður, sem er mjög vanur að umgangast háar upphæðir, þá verð ég að segja það, að mér er óskiljanlegt, hvernig hann rís upp gegn þeirri till., sem liggur hér fyrir til umr. Þegar þess er nú líka gætt, að það er búið að eyða 6 millj., án þess að ég muni eftir, að þessi hv. þm. hafi viðhaft eins hörð orð um það og þessi tilætluðu kaup af ríkisins hálfu. Ég verð að leiðrétta það hér, að þessi fjárfúlga er ekki 400 þús. kr., heldur mun það sönnu nær, að þegar allt er lagt niður með venjulegum vaxtakjörum, þá sé upphæðin nær 300 þús. kr. Það er sem sé sú upphæð, sem þarf til að reisa 3 íbúðarhús. Það sýnist ekki vera hægt um það að deila, að það er ekki einungis til mikillar prýði, heldur og mun það viðurkennt, að það sé vel viðeigandi, að ríkið fullnægi þeirri þörf, sem fyrr eða síðar kallar á dyr hjá því um opinberar byggingar, og hvort sem það verður nú forsetinn, sem býr þar, eða þar verður þinghöll eða stjórnarráð, þá verður því ekki móti mælt, að hér er aðeins um nokkurn árafrest að ræða, þangað til almenningur skilur, að þessi ráðstöfun var af viturleik gerð, og það því fremur, sem upplýst er, að ríkið þarf ekki að hafa neinn verulegan bagga af þessu, þar sem hægt er að ávaxta eignirnar nokkuð sæmilega. Ég sé því ekki neina ástæðu til að gera hér úlfalda úr mýflugu. Ég veit, að allir smekkmenn og allir þeir, sem sjá nokkuð fram í tímann, geta greitt þessari till. atkv.

Ég vildi víkja örfáum orðum að einni setningu í ræðu hv. 2. þm. Rang. í sambandi við till. hans um sjúkrastyrkinn, og það sem hann hefir gert að umtalsefni við hv. 4. þm. Reykv. Hv. þm. sagði, að það færi illa á því, ef hv. 4. þm. Reykv. væri á móti styrkveitingum í líknarskyni. Hv. 4. þm. Reykv. var nú einmitt að geta þess, að hann væri ekki á móti till. En ég vil segja það, að ef það situr illa á hv. 4. þm. Reykv. að vera á móti styrkveitingum í líknarskyni, þá hefir þessi hv. þm. líka gengið drottni á hönd, svo að þetta sama gildir um hann sjálfan. En nú vil ég fræða hann á því, að það stendur eins á fyrir tugum sjúklinga hér á landi, sem fátækir aðstandendur hafa kostað of fjár til, til þess að reyna að bæta úr hinum illa sjúkdómi þeirra. Ef hv. þm. hefir með þessu viljað meina annað en yfirskin og hræsni, þá gefst honum vonandi seinna tækifæri til að greiða atkv. með ráðstöfun, sem að gagni má verða, og setja aftur í embætti þann lækni, sem er viðurkenndur vísindamaður í þessari grein og sjúklingar eru að leita til utan spítala, vegna þess að ofstækisfullur ráðherra hefir rekið hann úr embætti til þess að hefna sín fyrir persónulega móðgun.