06.08.1931
Neðri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í B-deild Alþingistíðinda. (170)

1. mál, fjárlög 1932

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég vildi aðeins segja nokkur orð vegna þess að báðir hv. þm. Rang. hafa gert ræðu mína að umtalsefni. Ég ætla þá að byrja á 1. þm. Rang., því að ég met hann meira, og vil þá segja honum strax, að hann mun ekki þurfa að bera af sér sakir út af því, sem ég segi. Hann lagði áherzluna á það, að ég vildi ekki hirða neitt um kostnaðinn. En það er langur vegur frá því. Ég er með þessu meðfram af þeirri ástæðu, að þetta eru góð kaup og betri kaup en líkur eru til, að hægt verði að fá á þessum lóðum seinna. Svo er líka á það að líta, að á lóðunum standa hús, sem gefa af sér vexti, svo að upphæðin mun að mestu leyti renta sig. Hv. þm. sagði hið sama um skrautbyggingar fyrir bæinn. En það er nú svo, að það verður að byggja skrautbyggingar í bænum, eins og t. d. ráðhús. Og þessar byggingar verðum við að setja á góðar lóðir, því að það er synd og skömm að láta þær á þá staði, þar sem engin bæjarprýði er að þeim. Ég tók það fram í ræðu minni, að yfirleitt væri ég ekki með ákúrur út af stjórn bæjarins. En hefi miklu fremur verið verjandi þeirrar stjórnar, sem nú er á málefnum bæjarins, sérstaklega fjármálastjórnarinnar. Ég skal játa það, að það brauzt út margra ára innibyrgð reiði og óánægja yfir útliti bæjarins, þegar ég minntist á þetta. Það er nú svo með smekkinn eins og Rómverjar sögðu, að það er ekki hægt um hann að deila, því að hver hefir sinn smekk og þar við situr. En ég verð nú að segja það, að mitt hús er eitt af þeim fáu húsum hér í hænum, sem ég þyrði að leggja undir dóm skynbærra manna hvað smekkvísi snertir. Það hefir komið fram hjá byggingarnefndinni, hvað menn hafa lítinn smekk fyrir fallegum byggingum í þessum bæ, þar sem hún hefir oft fellt teikningu að fallegum húsum, en leyft önnur, sem voru mjög ljót.

Þá kem ég að lýðveldisforsetanum. Ég minntist nú aðeins á hann, af því að hv. þm. tók hann sjálfur. En ég get sagt það, að ég vil hafa hann í bænum, en ekki fyrir utan bæinn. En af því að þetta er aðeins stutt athugasemd, þá get ég ekki farið lengra út í það.

Ég þarf svo aðeins að minnast á ræðu hv. 2. þm. Rang. Mér kom það ákaflega undarlega fyrir sjónir, hvernig hann brázt við ræðu minni, því að ég held, að ég hafi verið eini maðurinn, sem stóð upp til þess að mæla með till. hans. En þá bregður hann mér um skilningsskort. En ég held þá, að skilningsskorturinn sé ríkari hjá honum sjálfum. Hv. þm. var að bera fram huggunarorð til hv. dm. um það, að ef þeim leiddist ræðumennska hans, þá myndu þeir venjast henni eins og sjómennirnir vélarhávaðanum. Annars verð ég að segja það, að þessi hv. þm. hlýtur að vera allviss um það, að till. verði samþ., þar sem hann ræðst á þá, sem mæla með henni. Ég get nú ekki sagt, að þetta séu heilindi. Það lítur út fyrir, að hann vilji standa á till., en hún verði svo felld. (SvbH: Atkvgr. sýnir það). Atkvgr. sýnir ekkert um það. Þar sem hann er að bregða mér um skilningsleysi, þá er auðséð, hvaða leiðbeiningu hann er að beina til hv. þdm. Hv. 1. þm. Rang. datt ekki í hug að ráðast á mig fyrir að hafa mælt með till. Ég vil ráðleggja hv. 2. þm. Rang. að gera sig ekki oftar eins beran að óheilindum.