29.07.1931
Neðri deild: 15. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í D-deild Alþingistíðinda. (1701)

75. mál, jarðeignaskýrslur

Sveinn Ólafsson:

Ég hefi ekki veitt þessari till. glöggar gætur fyrr en nú, er umr. hófust. Ég hefi því heldur ekki getað kynnt mér meðferð fasteignamatsins síðan því lauk í héruðunum. En fljótt á litið þætti mér eðlilegt, af því að fasteignamatið síðasta hefir ekki ennþá verið gefið út, að skora á stjórnina að hafa jarðamatsbókina nokkru fyllri og fróðlegri en síðast var hún. Mætti þar tilgreina stærð túna, heyfeng, fornt mat, legu við sjó eða veg, hlunnindi og annað það, er máli skiptir fyrir lánsstofnanir og aðrar opinberar stofnanir að vita. Slík tilhögun yrði ódýrari og fyrirhafnarminni en að gefa út sérstakar skýrslur, og auk þess myndi þetta verða að almennari notum, því að fasteignamatsbókin hlýtur ætíð að vera í margra höndum. Mér kemur í hug jarðamatsbókin gamla frá 1861, og einkum jarðatal Johnsens, sem báðar geyma ýmsan fróðleik um jarðirnar. Á ég ekki við það, að samkynja skýrslur væru um allt gefnar, heldur þær, sem mestu varða fyrir opinberar stofnanir og kaupendur jarðeigna og auðveldlega gætu fylgt jarðamatinu sjálfu.

Mér virðist því bezta meðferð till. að vísa henni til nefndar og breyta henni í þá átt, sem hér er stungið upp á, ef álitið er nauðsynlegt, að fyllri upplýsingar fáist um jarðeign en felst í síðasta fasteignamati. Á þetta hefi ég aðeins viljað benda, og má enginn skilja orð mín svo, að ég með því mæli á móti efni till.