29.07.1931
Neðri deild: 15. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í D-deild Alþingistíðinda. (1702)

75. mál, jarðeignaskýrslur

Magnús Jónsson:

Það má ekki skiljast svo, sem ég sé að leggja á móti þessari till., því að það er yfirleitt svo, að ég legg ekki á móti því, að safnað sé til varðveizlu miklum fróðleik, eins og þessar skýrslur mundu verða. En það er ófullkomið að miða við allsherjarmatið, sem fram fer einungis á 10 ára fresti, enda engin frágangssök að gefa breytingar út nálega jafnharðan. En ég vildi mega leggja til, ef að því yrði horfið að gefa þessar skýrslur út, að hagstofan gerði það og gæfi þær út sem hagskýrslur, því að hér er í rauninni ekki um annað að ræða.

Hv. 1. þm. S.-M. stingur upp á öðru fyrirkomulagi, en ég veit ekki, hvort það er betra. Ef fróðleikur ætti að vera nokkur að ráði í jarðamatsbókinni, yrði hún að vera geysistór. Þetta yrði mjög dýrt, því að upplag hennar er líka mjög stórt. Nú er það alkunna um bækur, sem prenta má í litlu upplagi, að það má fá miklu ódýrara með því að fjölrita þær. En skýrslur eins og þær, er hér ræðir um, mættu einmitt verða að fullum notum í litlu upplagi.

Ég heyrði ekki hv. flm. tala neitt um að vísa málinu til n. En þó virðist mér sjálfsagt, að einmitt það sé gert. Ég veit ekki almennilega, hvaða n. það ætti helzt að vera, og held þó helzt landbn. Vil ég því gera það að minni till.