06.08.1931
Neðri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (173)

1. mál, fjárlög 1932

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Sannleikur er það hjá hv. þm. Borgf., að það er þarfamál, sem hann minntist á síðast. En ég vonast til, að einhver ráð verði með að bjarga því máli, og mér virðist ástæðulaust að blanda mér inn í þessar umr. um lóðakaupin, því að það hefir ekkert nýtt komið fram í málinu, síðan ég talaði áðan. Málsskjölin liggja frammi fyrir hv. þm., og það mun ekki hafa nein áhrif að vera að teygja umr.

Ég vildi gera að umtalsefni tvö atriði í ræðu hv. þm. Borgf. Hann vék að till. um það að gefa Mjöll eftir lán og sagði, að þótt þingið veitti Búnaðarbankanum heimild til þess, þá væri ekki um neitt nýtt að ræða, og nefndi til eftirgjafir bæði til einstakra manna og hreppa. En þessar samþ. voru gerðar eftir að lög um Búnaðarbankann voru sett, en áður en ríkissjóður afhenti honum sjóðinn. Það er mikill eðlismunur á því, hvort slíkt sem þetta er samþ. af þinginu eftir að Búnaðarbankinn hefir birt, að hann eigi þennan sjóð. (PO: Hvenær fór afhendingin fram?). Ég ætla, að hún hafi farið fram í okt. eða nóv. 1930, en man það þó ekki með vissu.

En eins og hv. þm. veit, stendur í stímabraki um samninga milli Mjallar og kaupfélags Borgfirðinga, og færi því vel á því að láta bíða með þetta unz séð verður, hvernig þau viðskipti fara. Og þótt ég álíti ekki heppilegt að afgr. málið nú eins og það liggur fyrir, þá væri ekki útilokað að taka það upp á þinginu í vetur.

Hitt atriðið í ræðu hans, er ég vildi minnast á, er það, að hann skoðaði till. mína um heimild til stjórnarinnar til að færa niður um 25% nokkra útgjaldaliði fjárl., ef nauðsyn krefði, sem árás eða vantraust á fjvn. Hann sagði, að n. hefði lagt mikla vinnu í þetta mál. En ég vil benda á það, að það er langt frá, að í till. minni sé um að ræða nokkurt vantraust á hv. fjvn. Ég benti á það, að till. mín er eiginlega traust á fjvn., þar sem í till. er byggt á þeim grundvelli, sem fjvn. hefir lagt. Því að ef stjórnin neyðist til að draga úr, þá á það ekki að koma fram á þessum lið eða hinum, heldur á að byggja á grundvelli þeim, sem fjvn. hefir lagt og byggt sínar till. á. — Loks sýnir það, hvílíkur misskilningur þetta er, að ég tók það fram, að endanleg ákvörðun um það, hvort þessi heimild yrði notuð, yrði tekin á þinginu í vetur í samráði við hv. fjvn. Þegar á þetta er lítið, þá sést, að till. og orð mín gera ráð fyrir, að allt sé gert í samráði við fjvn. og í fullkomnu trausti til hennar.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að brtt. á þskj. 222, sem er brtt. við brtt. á þskj. 183, um aukna heimild til að styðja Eimskipafél. Íslands. Eins og hv. þdm. hafa heyrt, hefir orðið allmikill ágreiningur út af orðalagi á brtt. n. Nú er það almennt regla hjá þinginu, að þegar um er að ræða miklar aukningar á framlagi til einhverra stofnana, þá fylgir því aukið eftirlit. Í því liggur ekkert vantraust á stjórn stofnunarinnar og því síður illur hugur. Í því sambandi má nefna Búnaðarfél. t. d., sem hefir tvöfalt aðhald, þar sem meiri hl. stjórnarinnar er kosinn af Alþ. og fjárhagsáætlun þess verður að samþykkjast af ráðherra. Sama er að segja um Fiskifélagið. Fjárhagsáætlun þess heyrir undir samþykki atvmrn. Nú hefir verið borin fram brtt. um þetta orðalag, til að ná þessu sama á fyllri hátt, til þess að samkomulag náist um afgreiðslu þessa máls. Ég hygg, að framkvæmdastjóri Eimskipafél. muni taka vel þessari afgreiðslu. — Í sambandi við þessa aukningu er rétt að taka tillit til þess, hvað Eimskipafél. hefir fengið fyrir það, sem það leggur til í strandferðirnar, ég á við þessar 60 þús. kr., sem ákveðnar voru fyrir löngu. Þetta hefir verið gert í samráði við hinn stjórnskipaða stjórnanda úr Eimskipafél. En nú finnst mér rétt að taka til nýrrar athugunar, hvað fél. á að bera úr býtum fyrir þetta. Fulltrúinn lítur svo á, að það eigi að bera meira úr býtum fyrir þátttöku sína í strandferðunum.

Það hefir verið lítið svo á af sumum, að í þessari till. fælist vantraust á framkvæmdastjóra Eimskipafél. Hann er nýtekinn við félaginu og hefir verið óheppinn með að taka við á erfiðum tímum.

En ég ber gott traust til hans. Aðstaðan hefir verið erfið, og það reynir mjög á hæfileika, og þarf að sigla milli skers og báru. En ég hygg, að forstjórinn hafi marga góða hæfileika til að rækja starfið. Mér er kunnugt um það, að hinn ungi framkvæmdastjóri hefir í hyggju að koma fram endurbótum í rekstri Eimskipafél., sem vænta má góðs árangurs af. Þess vegna má alls ekki lesa vantraust á honum út úr þessari till. Hann hefir haft mjög góða samvinnu við stjórn ríkisskipanna, eins og nauðsynlegt er. Þess vegna vænti ég góðrar sameiningar um brtt. á þskj. 222.