06.08.1931
Neðri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

1. mál, fjárlög 1932

Haraldur Guðmundsson:

Ég ætla aðeins að gera stutta aths., og skal ég ekki ýfa sár þm. mikið. En út af því, sem hæstv. forsrh. sagði áðan, þykir mér rétt að benda á nokkur atriði. Hvað snertir brtt. II. á þskj. 207, um heimild fyrir stjórnina til þess að borga út aðeins 3/4 hluta þess fjár, sem ákveðið er í fjárl., ef ástand ríkissjóðs verður svo bágborið, þá reyndi hæstv. forsrh. að réttlæta hana með því, að hún yrði aðeins notuð eftir ákvörðunum þingsins í vetur. Ég bið um skýringu, hafi ég ekki skilið hæstv. forsrh. rétt. (Forsrh.: Endanlega ákvörðun átti vetrarþingið að taka). Ég verð að segja, að sé þetta meiningin, þá er till. ákaflega brosleg. Ég veit þess engin dæmi, að þing hafi samþ. heimild handa næsta þingi, og ég efast um, að slíkt sé til í þingsögu nokkurs lands. Þetta veit hæstv. forsrh., og því er óskiljanlegt, að hann skuli bera slíka till. fram. Ég veit ekki betur en að næsta þing sé fullkomlega fært um að samþ. heimildir sem þessar alveg upp á eigin spýtur. Ég verð því að segja, að sé till. samin í þessum tilgangi, þá get ég ekki séð, til hvers hún er. Hæstv. forsrh. hélt því fram, að ég hefði rangt fyrir mér í því, að þetta kæmi mest niður á verklegu framkvæmdunum.

Þegar ég lít yfir fjárlagafrv., sé ég enga liði, sem þetta kæmi harðar niður á, nema ef hæstv. forsrh. telur heyra undir þetta áætlunarliði til starfrækslu ýmsra opinberra stofnana, t. d. stjórnarráðsins. Hann talaði líka um í þessu sambandi, að e. t. v. yrði hægt að gera rekstur ýmsra opinberra stofnana ódýrari, en það kemur þessari till. ekki nokkurn skapaðan hlut við.

Hæstv. forsrh. talaði um þann skrípaleik, sem ég léki, fyrst ég gerðist svo djarfur að óska þess, að ég fengi að sjá framan í nýju stjórnina sem fyrst. Ég skil ekki, hvað hæstv. forsrh. hefir meint með þessu. Ég held því fram, að ekki væri úr vegi að fá að sjá framan í þessa nýju stjórn. Hér liggja fyrir fjárl. með víðtækum heimildum fyrir þessa verðandi stjórn, sem enginn veit enn, hvernig verður skipuð. Hæstv. forsrh. sagði, að sú stjórn, sem tæki við, mundi algerlega fylgja sömu stefnu í fjármálum og hann og hans flokkur. Það er nú svo. En ég get ekki séð, að í afskiptum hæstv. forsrh. og flokks hans af fjárl. hafi komið fram nokkur önnur stefna en sú, að skera niður öll fjárframlög til verklegra framkvæmda hér á landi, sem þeir hafa þorað. Svo mjög er það líklegt, að sú verðandi stjórn haldi fram sömu stefnu. Hæstv. forsrh. tókst ekki að hagga því hið minnsta, sem ég sagði, að afgreiðsla fjárl. væri argasti skrípaleikur. — Ég get tekið eitt dæmi. Tveir af samflokksmönnum hæstv. forsrh. flytja till. um, að veittar verði 300 þús. kr. til atvinnubóta. Þetta var bjargráð það, sem Framsóknarflokkurinn ætlar að beita á móti kreppuástandi því, sem nú stendur yfir. Hæstv. forsrh. lætur í ljós, að sér lítist vel á þetta, eitthvað yrði að gera. En nú kemur nokkuð nýtt fram. Hæstv. stj. fer fram á, að hið háa Alþingi gefi sér heimild til að klípa af lögboðnum fjárframlögum upphæð, sem er álíka mikil og það, sem þessir tveir samflokksmenn hans ætluðu að verja til atvinnubóta. Þessir hv. þm. ætla að veita 300 þús. kr. til þess að bjarga landsbúum frá hörmungum atvinnuleysisins, en svo kemur hæstv. stj. og tekur þessar 300 þús. kr. aftur til þess að bjarga ríkissjóði! Þetta minnir á það, þegar Reykjavíkurbær ætlaði að fara að byrja avinnubætur á síðastl. vetri. Þá var 70 verkamönnum sagt upp vinnu, en 60 teknir í staðinn. Ennþá verri yrði þó útkoman hjá ríkinu, því að það fækkar verkamönnum sínum um 3/4 í atvinnubótaskyni, en bærinn þó ekki nema um ¼.

Það, sem hæstv. ráðh. sagði um búfjárræktarlögin, skiptir ekki miklu máli. Hann taldi, að kostnaður við framkvæmd þeirra yrði tæpast meiri en 20–30 þús. kr. á fyrsta árinu. Ég vissi ekki betur en að í vetur væri kostnaður við framkvæmd þeirra talinn um 150–200 þús. kr. á ári, en það er rétt, að þegar málið var í Ed. um daginn, var komið með þessa 20–30 þús. kr. áætlun.

Ég sé ekki ástæðu til þess að taka fleira fram viðvíkjandi þessu frv.; ég vil aðeins endurtaka það, að mér finnst það í mesta máta óviðkunnanlegt, að deildin skuli ekki fá að sjá framan í nýju stjórnina áður en hún afgr. fjárlögin.