06.08.1931
Neðri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

1. mál, fjárlög 1932

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég ætla aðeins að segja örfá orð til þess að svara hv. þm. Seyðf. Þar sem hann heldur því fram, að mjög ólíkar upphæðir hafi verið nefndar í sambandi við búfjárræktarlögin, þá lýsir hann sig beran að megnri vanþekkingu um þessi lög. Hann veit það sýnilega ekkj, að nú þegar leggur ríkið í mikinn kostnað í sambandi við þessi lög; það er innifalið í liðnum til styrktar Búnaðarfélagi Íslands.

Um hitt atriðið, að verið sé að leika einhvern skrípaleik með því að samþ. heimild, sem næsta þing á að hafa endanlegt ákvörðunarvald um, hvort nota skuli, get ég verið fáorður. Hv. þm. er svo kunnugur stjórn fyrirtækja, að hann hlýtur að sjá gagnsemi þessarar till. Ef upplýsingar um ástand ríkissjóðs um áramót eru það vondar, að þurfi að taka til þessarar heimildar, þá verður strax 1. jan. farið að borga á þá leið, sem heimildin segir til um, 3/4 hluta af því, sem áætlað er. Og ef það er gert, stendur þingið ólíkt betur að vígi, ef það á að taka ákvörðun um þetta t. d. eftir að komið er fram í marz, heldur en ef þá væri búið að borga sumar fjárveitingar alveg upp í topp, og aðrar yrðu þá alveg útundan. Það er því ólíkt hentugra fyrir stjórnina og næsta þing að taka ákvörðun um þetta efni, ef slík heimild sem þessi er samþ. nú.