22.07.1931
Neðri deild: 7. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (1751)

56. mál, kartöflukjallari og markaðsskáli

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Þetta mál hefir fyrr komið fram hér í þinginu. Á þinginu 1929 bárum við sömu flm. fram þáltill., þar sem skorað var á ríkisstj. að rannsaka möguleikana til þess að koma upp markaðsskála og kartöflukjallara í Reykjavík. Stj. brást vel við og fól Búnaðarfél. Ísl. að athuga málið. Búnaðarfél. kaus svo nefnd í málið, og var ég einn meðal þeirra, sem áttu sæti í henni. Var svo tekið að undirbúa málið, en sökum annríkis og sérstakra ástæðna var ekki hægt að ganga frá undirbúningi þess og dróst það þangað til á síðasta þingi, að við flm. tókum við, þar sem Búnaðarfél. hafði hætt, og sömdum frv. um þetta, en það náði þá ekki fram að ganga. Það er mikil nauðsyn, að Íslendingar rækti og framleiði sem mest af sínum nauðsynjum sjálfir. Það er að vísu fjöldi matjurta, sem við getum ekki ræktað hér vegna veðráttunnar, og verðum því að kaupa þær frá útlöndum. En það hefir þó sýnt sig, að kartöflur er hægt að rækta hér að staðaldri, og geta menn átt vísa sæmilega uppskeru, hvernig sem árar. Það ætti ekki að vera neinum erfiðleikum bundið fyrir hvern bónda víðast hvar á landinu að rækta til sinna eigin þarfa af kartöflum. Eftir skýrslum er það ljóst, að ennþá skortir 1/3 hluta af þessari vörutegund til þess að Íslendingar framleiði nóg til eigin þarfa. 2/3 hlutar eru ræktaðir í landinu. Árin 1927–8 hafa verið fluttar inn matjurtir fyrir 400–500 þús. kr. Það munar ekki lítið um það fyrir oss Íslendinga að þurfa að láta þetta fé renna út úr landinu, þar sem við hefðum hæglega getað framleitt mikið af þessari vöru sjálfir.

Það, sem aðallega stendur í vegi fyrir ræktun þessara vara, er líklega hvað mest sölufyrirkomulagið. Bændur eru í hreinustu vandræðum með að koma vörunni í verð. Á haustin, þegar mest berst að af allskonar garðávöxtum, fyllast undir eins hin litlu geymsluhús, sem til eru, og menn verða alveg í vandræðum með að losna við vörur sínar. Væri það afarnauðsynlegt, ef hægt væri að koma upp góðu geymsluhúsi hér í Reykjavík, og það er enginn vafi á því, að ef slíkt yrði gert, myndi það ýta mjög undir menn með framleiðsluna, og það ekki sízt þegar hægt væri að koma með vörurnar í markaðshöllina til sölu. Við flm. þessa frv. höfum annað frv., sem mun koma fram síðar og gerir það mögulegt að koma með vörurnar á haustin og geyma þær að vetrinum í geymsluhúsi þessu, þannig að þeir geti fengið peninga út á þær þegar á haustin, er þeim er komið í geymslu. Ég vil benda á það, ef dragast skyldi, að þessi kartöflukjallari yrði byggður, að kjallarinn undir þjóðleikhúsinu er lítið notaður, og hann myndi vafalaust vera ágætur til þess að geyma í honum kartöflurnar. Í sambandi við hinn fyrirhugaða kartöflukjallara vil ég láta byggja söluskála, eins og víða eru erlendis. Koma bændurnir þangað með vörur sínar og selja á opinberum markaði. Þetta hefir ekki tíðkazt hér að ráði, og aðalástæðan til þess er veðráttufarið. En eins og þetta fyrirkomulag hefir gefizt vel erlendis og haft mikla þýðingu bæði fyrir kaupendur og seljendur, svo má og telja víst, að það muni eiga erindi hingað til lands. En þá er nauðsynlegt, að þeir, sem selja vilja framleiðsluvörur sínar með þessum hætti, geti haft þak yfir höfuðið þegar illa viðrar. Lítilsháttar tilraunir hafa þegar verið gerðar um slíka sölu og gefizt allvel, auk þess sem Akurnesingar hafa lengi selt kartöflur sínar á hafnarbakkanum. Þessi söluaðferð hefir þann kost, að seljendur hafa losnað við vöru sína með litlum tilkostnaði og kaupendur fengið ódýrari vöru en ella. Ef til væri markaðsskáli, myndi fljótlega komast fast skipulag á slíka sölu.

Við flm. ætlum því með þessu frv. að slá tvær flugur í einu höggi: tryggja geymslu á innlendum vörum og greiða fyrir viðskiptum milli sjávar og sveita.

Legg ég til, að frv. verði vísað til landbn. að lokinni umr.