20.08.1931
Efri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í C-deild Alþingistíðinda. (1770)

56. mál, kartöflukjallari og markaðsskáli

Jón Baldvinsson:

Það er langt síðan því var fyrst hreyft, að nauðsynlegt væri að auka ræktun jarðepla og annara manneldisjurta hér á landi, og að bezta ráðið til þess mundi að greiða fyrir sölu þessara afurða á þeim stöðum, þar sem þær eru mest notaðar, og þá fyrst og fremst hér í Reykjavík. Væri því nauðsynlegt, að eitthvað yrði gert í þá átt að gera framleiðendum þessarar vöru hægara fyrir um söluna eftir uppskerutímann, og að jafnframt yrði þeim séð fyrir geymslu á afurðunum á þeim stöðum, sem auðvelt er að selja þær á. Hér er farið fram á að byggja í þessu skyni, og má vel vera, að það sé nauðsynlegt, en ég vildi þó leyfa mér að benda hv. d. á það — til stj. þýðir ekki að tala, því að hún er engin til, og enginn veit, hvenær hún kemur —, að hér er í bænum bygging, sem sennilega væri hægt að nota í þessu skyni, og á ég þar við leikhúskjallarann. Verður hann ekki fyrst um sinn notaður til annars þarfara en að geyma í honum jarðepli, ef hann þá er hæfur til þess, sem ég tel líklegt, og losaðist stj. með þessu móti við að byggja þetta hús og verja til þess 50 þús. kr. Leikhúsbyggingunni virðist miða hægt áfram og er víst, að hún verður ekki tilbúin á næstu árum, en meðan svo stendur, virðist þessi staður tilvalinn í þessu skyni. — Ég vildi og hinsvegar leyfa mér að benda framsóknarmönnum á það, að hér er farið fram á að byggja hús í Reykjavík undir afurðir sveitamanna, í stað þess sem hin síðari ár hefir fjárstrauminum verið einbeitt í sveitirnar, svo að maður er hálfhissa á því, að ekki skuli vera um það talað að byggja slíkt afurðahús t. d. í Vestur-Húnavatnssýslu eða Vestur-Skaftafellssýslu. Ég segi þetta ekki af því, að ég sé á móti slíkri byggingu í sjálfu sér, en ég vildi benda á, að þetta er ekki í samræmi við aðrar samþykktir um fjárveitingar hér á þinginu. —

Ég hefi þessi orð ekki fleiri. Fyrir mér vakti það aðeins að beina því til n., hvort henni sýndist ekki ráð að bæta inn í frv. heimild fyrir stj. til að taka á leigu leikhúskjallarann í þessu skyni, eða þá einhverja aðra opinbera byggingu, sem kynni að mega nota.