21.08.1931
Efri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í C-deild Alþingistíðinda. (1775)

56. mál, kartöflukjallari og markaðsskáli

Jón Jónsson [óyfirl.]:

Það er svo ástatt, að hv. frsm. landbn. er ekki viðstaddur, svo ég held, að ég verði að segja nokkur orð um þetta mál. Ég álít brtt. hv. 2. landsk. sízt til bóta. Eins og hv. 1. þm. Reykv. tók fram, er hér aðeins um heimild að ræða. Hv. frsm. landbn. hefir látið þess getið, að hann líti svo á, að ríkisstj. sé heimilt að leigja hús í þessu skyni, ef hún á þann hátt getur náð tilgangi þeim, sem í frv. felst.

En mér finnst ekki vert að draga úr því, að framleiðslan blómgist og viðskiptin verði sem greiðust. En það er einmitt markmið frv. að greiða fyrir viðskiptunum. Það er ekki laust við, að það sé þjóðarsmán að verja miklu fé til þess að kaupa vöru, sem við getum ræktað sjálfir, eins og segja má um grænmeti. Mér liggur við að segja, að það sé sleifarlag hjá mönnum hér í Rvík að hafa ekki komið sér upp samvinnufélagsskap til þess að annast sölu á þessum vörum. En þar sem það hefir átt erfitt uppdráttar, þá er ekki nema réttmætt, að ríkið hlaupi undir bagga til þess að koma þessu upp, en svo efast ég ekki um, að innan skamms rísi hér upp samvinnufélagsskapur. Við þurfum á þessum tímum að notast sem mest við innlenda framleiðslu. Ég mæli því á móti þessari brtt., en vona, að ríkisstj. nái tilgangi frv., því að þá er töluvert gott verk unnið.