22.08.1931
Neðri deild: 36. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í B-deild Alþingistíðinda. (1788)

27. mál, einkasala á síld

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Áður en þetta mál er afgreitt héðan úr hv. d. vildi ég segja nokkur orð um það. Vil ég þó fyrst nota tækifærið til að óska hinum gömlu vinum, sem ég sé, að nú hafa setzt saman í ráðherrastólana, til hamingju. Kemur mér út af þessu í hug það, sem gerðist í Ed. í dag, en har lét einn þm. í Framsóknarflokknum í ljós, að allar vonir stæðu til þess, að núv. dómsmrh. færi nú batnandi úr þessu, og sagði þessi þm. í þessu sambandi, sem rétt var, að batnandi manni er bezt að lifa. Mér kemur þetta í hug, af því að ég hefi grun um, að hæstv. fjmrh. hafi alið einhverjar svipaðar vonir í brjósti viðvíkjandi dómsmrh., því að ef svo væri, vildi ég, að hæstv. fjmrh. hefði verið staddur í Ed. rétt áðan, til þess að sjá framan í sessunaut sinn þar, þegar hann steytti hnefana framan í einn þm. þar og kallaði hann bæði þjóf og ræningja. (Forseti (hringir): Ég vil biðja hv. þm. G.-K. að halda sér að málinu, en það er einkasala á síld, sem hér er á dagskrá). Það er rétt hjá hæstv. forseta, að hér er til umr. frv. til 1. um breyt. á síldareinkasölul., en ég vildi nú engu að síður nota þetta tækifæri til að óska þessum gömlu vinum til hamingju, sem nú eiga að ríkja saman í einingu andans og bandi friðarins. (Fjmrh.: Það er vingjarnlega gert af hv. þm.). En ég verð þó að segja það, að mikill er máttur drottins, ef þessi hjónakærleikur stendur lengi, því að þetta er það ólánlegasta hjónaband, sem ég hefi séð á æfi minni, og skil ég satt að segja ekkert í prestinum í Laufási, að hann skyldi gefa sitt samþykki til þess.

Skal ég þá víkja að sjálfu málinu, og vil ég fyrst gera grein fyrir því, af hverju ég hefi ekki tekið þátt í umr. um það. Eins og áður, var ég að þessu sinni meðflm. að frv. til 1. um breyt. á stjórnarfyrirkomulagi þessa fyrirtækis, og er það einmitt það sama frv., sem hér um ræðir. en frv. hefir nú tekið allmiklum breyt. í meðförunum samkv. till. sjútvn., en fyrir því hafði ég ekki afskipti af málinu í umr., að mér duldist ekki, að þessar breyt. á stjórnarfyrirkomulagi einkasölunnar voru til batnaðar fremur en hitt, en hinsvegar lít ég svo á, að fengin sé það mikil reynsla um þetta fyrirtæki á undanförnum árum, að ekki sé hægt að gera sér miklar vonir um það, enda þótt breytt sé um stjórnarfyrirkomulagið. Fyrrv. stj. einkasölunnar hefir haldið svo á málunum, að keppinautar okkar á þessu sviði hafa færzt í þá auka, að flestar þær þjóðir, sem síldar neyta á annað borð, hafa gert hingað út leiðangra og aflað það vel, að svo má heita, að þær geti sjálfar fullnægt þörfinni fyrir síldina heima fyrir.

Þær vonir, sem menn gerðu sér um þetta fyrirtæki, hafa því gerbrugðizt, og það er að fara úr öskunni í eldinn, ef reynt væri að fara að lappa upp á þetta fyrirtæki. Þá væri skömminni skárra að létta þessu fargani af.