06.08.1931
Neðri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í B-deild Alþingistíðinda. (182)

1. mál, fjárlög 1932

Héðinn Valdimarsson:

Okkur jafnaðarmönnum finnst, að sérstakar ástæður séu til þess að hafa engan eldhúsdag að þessu sinni. Kosningar eru nýlega um garð gengnar; menn hafa tekið afstöðu og líklegt, að þeir haldi þeirri sannfæringu fyrst í stað, þrátt fyrir allar eldhúsumr. Það er líka á allra vitorði, að landið er stjórnlaust, og óupplýst, hvort hægt er að mynda nokkra stjórn vegna innbyrðis ósamlyndis og metnaðar í Framsóknarflokknum. Þó benda þeir atburðir, sem gerðust í gær í hv. Ed., til þess, að stjórnarmyndun muni ekki langt undan, enda virtist það koma fram í ræðu hv. 2. þm. Skagf. Virðist mega fullyrða, að samkomulag hafi orðið um það í Ed., að Íhaldið réði einum manni í stjórnina, og muni það vera hv. þm. V.-Ísf. Að launum gaf Íhaldið Framsókn verðtollinn.

Það er rétt við þetta tækifæri að skýra lauslega frá því, hvernig mér virðist þetta þing og starfsemi þess horfa við. Hér liggja fyrir breytingar á kjördæmaskipuninni, Sogsmálið, atvinnubótamálið og ýms önnur stórmál, sem þurfa skjótrar afgreiðslu. Hinsvegar virðist það vera samkomulag milli stóru flokkanna að skiljast svo við þingmál nú, að afgr. eingöngu fjárl. og svo verðtollinn, til að taka fé úr vösum þeirra, sem minnst eiga. Fjárl. á að afgr. svo snoðin að verklegum framkvæmdum, að þær verði ekki nema ¼ af því, sem þær hafa verið undanfarið. Af öðrum málum heyrist lítið. Nefndirnar hafa ekki klofnað um nokkurt mál. Nál. hafa verið einróma í þeim málum, sem þær hafa skilað, en samkomulag virðist vera um að svæfa öll helztu málin. Svo er um öll frv. okkar jafnaðarmanna. Báðir flokkar eru sammála um að gera ekkert í atvinnubótamálinu, þegar frá er skilið hið litla og ómerkilega frv., sem tveir þm. úr Framsókn flytja. Borgaralegu flokkarnir með tveimum nöfnunum eru raunverulega gengnir saman í einn flokk, eins og víðast vill verða, er á herðir, til að halda niðri kröfum jafnaðarmanna og alþýðunnar.

Það eru skammarlegir fulltrúar þjóðarinnar, ef rétt er að nefna þá því nafni, sem vita, að atvinnuleysi og neyð blasir við þúsundum manna, og ætla þó að snúa svo heim til sín af löggjafarþingi þjóðarinnar, að hafa ekkert gert nema þyngja byrðar þeirra sömu manna, sem neyð og hungur bíður. En slíkum aðförum verður ekki látið ómótmælt til lengdar. Það skulu þeir vita.