06.08.1931
Neðri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í B-deild Alþingistíðinda. (184)

1. mál, fjárlög 1932

Jóhann Jósefsson:

Ég flutti við 2. umr. í samráði við vitamálastjóra brtt. um byggingu þriggja vita, en tók þá till. aftur eftir tilmælum fjvn. Fjvn. flytur nú brtt. um 65 þús. kr. í þessu skyni. Þetta er að vísu lægri fjárhæð en ég hefði kosið, en ég mun þó sætta mig við brtt. hv. nefndar.

En nú hefir hv. 2. þm. Rang. flutt brtt. um að vitar skuli byggðir fyrir þetta fé aðeins „ef fé er fyrir hendi“. Mig furðar stórlega á því, að þótt hv. þm. hafi á einhvern hátt viljað hefna sín fyrir það, að samskonar „klásúla“ var sett við brúna á Þverá, skuli hann beina spjótum sínum í þessa átt og reyna að hindra framkvæmdir, sem miða að því að tryggja líf sjófarenda. Og því síður var ástæða til þess, sem svo hverfandi lítið af því fé, sem veitt er til verklegra framkvæmda, gengur til sjávarsíðunnar. Ég vil því skora á hv. d. að fella þessa brtt. hv. 2. þm. Rang., enda býst ég við, að hún sé flutt að lítt hugsuðu máli.

Hæstv. forsrh. gerði nokkurn samanburð á Eimskipafél. Íslands, Búnaðarfél. og Fiskifél. Hann taldi, að íhlutun ríkisvaldsins væri jafnréttmæt við öll þessi félög, vegna þess, að öll nytu þau fjárstyrks úr ríkissjóði. En ég vil benda á það, að Búnaðarfél. fær svo að segja hvern einasta eyri af tekjum sínum með beinum fjárveitingum úr ríkissjóði, og Fiskifél. fær sömuleiðis allar sínar tekjur með beinum fjárframlögum úr ríkissjóði, en sá styrkur, sem ætlazt er til að heimila stj. að greiða Eimskipafél., er aðeins 6–7% af brúttótekjum félagsins, eins og þær reyndust árið 1930 samkv. reikningi þess. Þetta er því engan veginn sambærilegt, og slík íhlutun, sem hæstv. ráðh. fer fram á, er ekki á þessum grundvelli réttmæt, enda er ekki gert ráð fyrir, að bein afskipti ríkisstj. muni hafa nein bætandi áhrif á stj. fél.

Hv. frsm. minntist á byggingu sumarskýlis símamanna, og skildist mér á honum, að hann teldi hér vera um opinbera eign að ræða. En þetta er „privat“eign símafólksins, sem kemur ekkert hinum opinberu eignum símans við. Ummæli hans voru ekkert annað en vandræðalegt fálm og tilraun til þess að komast út úr þeim ógöngum, sem hann er kominn í, með því að bendla ríkisstj. við þessa 3 þús. kr. fjárveitingu. Það getur vel verið, að þetta mætti bíða, en svo er um fjöldamargt fleira í þessu frv., og þar sem byggingin er komin upp, virðist mér full þörf á að samþ. styrkinn einmitt nú.